Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 19:59:22 (6211)

2004-04-06 19:59:22# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[19:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur í sjálfu sér ekki verið gengið frá neinu endanlegu í þessum efnum. Eins og ég sagði finnst mér eðlilegt að þessi mál verði rædd á vettvangi utanrmn. Í dag fara um 34% af þróunaraðstoðinni til tvíhliða þróunaraðstoðar en 66% til marghliða þróunaraðstoðar. Við höfum gert ráð fyrir því í þeirri vinnu sem hefur farið fram, bæði í Þróunarsamvinnustofnun og ekki síst í ráðuneytinu, að þetta hlutfall verði þannig að marghliða þróunaraðstoð verði 60% og hlutdeild tvíhliða þróunaraðstoðar aukist lítillega, þ.e. fari þá í 40%.

Auðvitað má hnika öllu slíku til og um það má lengi, ekki endilega deila, heldur lengi ræða hverjar eigi að vera helstu áherslurnar. Þetta er alveg í samræmi við þær tillögur sem komu fram í skýrslunni frá síðasta ári. Eins og ég sagði áðan var það á ríkisstjórnarfundi í morgun sem þessi tillaga var endanlega afgreidd. Hún er búin að vera til umfjöllunar lengi. Síðan er sjálfsagt að ræða hana frekar. Meginatriðin í þessu eru sem sagt þau, í þeim tillögum sem nú eru uppi, að hlutfallið verði 0,35%, 40% verði tvíhliða aðstoð og 60% marghliða aðstoð.