Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 20:21:12 (6215)

2004-04-06 20:21:12# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[20:21]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram í sambandi við umhverfismálin að á þessu stigi er ekki um ágreining að ræða milli aðila. Það eru sem sagt skoðanaskipti um tengsl vísinda og pólitískrar stefnumörkunar. Það liggur alveg ljóst fyrir að af hálfu sumra, þar á meðal Bandaríkjamanna, að þeir telja á þessu stigi að vísindalegar niðurstöður þurfi að vera klárar áður en menn fara út í pólitíska stefnumörkun.

En við vinnum enn þá sem formennskuríki á þeim grundvelli í samræmi við upphaflega áætlun. Sem formennskuríki berum við að sjálfsögðu ábyrgð á að reynt sé að ná niðurstöðu í málum sem allir geta sætt sig við enda komast ríkin að engri niðurstöðu að öðrum kosti. Þetta þekkir hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Það er einmitt af þeim ástæðum sem við höfum ákveðið að boða til málþings núna síðar í þessum mánuði til að ræða þessi mál og reyna að greiða fyrir því að við náum niðurstöðu um þau. Ég tek undir það með hv. þm. að um mjög mikilvæg mál er að ræða sem varða ekki aðeins okkur heldur alla heimsbyggðina. En við vitum að ríki heims hafa haft uppi misjafnar áherslur í sambandi við Kyoto-bókunina og það er eitt af þeim málum sem núna eru rædd í aðdraganda kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum eins og mörg önnur. Og við vitum um skoðanir sem hafa verið uppi í Bandaríkjunum í þeim efnum.