Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 20:23:17 (6216)

2004-04-06 20:23:17# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[20:23]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ákaflega merkilegt að skoða og hlýða á þetta. Ég fæ ekki betur séð en að hér sé uppi ágreiningur um það milli annars vegar tilvonandi umhvrh. og hins vegar tilvonandi forsrh., sem bæði koma að Norðurskautsráðinu, um það hvernig beri að túlka afstöðu Bandaríkjanna gagnvart tillögum til úrbóta á þessu sviði.

Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir kom hér upp í dag og greindi frá því að Bandaríkjamenn væru að reyna að bæla tillögur til þess að draga úr losun skaðlegra lofttegunda. Ég kom hér sérstaklega upp til að spyrja hv. þm. um það hvort ég hefði virkilega heyrt rétt, hvort þetta væri svo. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir kvað svo vera og tók það sérstaklega fram að það væri einmitt sú þeirra þriggja skýrslna sem ég nefndi áðan og varðaði tillögur að úrbótum sem Bandaríkjamenn væru að reyna að bæla niður.

Hæstv. utanrrh. sem formlega fer með forustu í Norðurskautsráðinu, vegna þess að Íslendingar eru þar forustuþjóð eins og sakir standa, telur að svona sé málið ekki vaxið.

Ég segi sem þingmaður á hinu háa Alþingi að ég tek mark á því þegar sá fulltrúi sem hið háa Alþingi hefur kosið til þess að sitja í Norðurskautsráðinu og gæta hagsmuna Íslendinga kemur og heldur þessu fram. Ég kaus hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur eins og allir aðrir þingmenn hér til þess að sitja fyrir þingið í Norðurskautsráðinu og hún hefur samviskusamlega flutt hér grafalvarlegar upplýsingar inn á þingið. Það er ljóst að afstöðu hæstv. utanrrh. ber ekki alveg saman við það sem hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, tilvonandi umhverfisráðherra, segir. Þess vegna ættu menn að skilja það að þetta mál hlýtur að þurfa að ræðast á hinu háa Alþingi eins fljótt og auðið er.