Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 20:40:12 (6221)

2004-04-06 20:40:12# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[20:40]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara fá að þakka hæstv. utanrrh. fyrir mjög gott svar, ég hefði ekki getað svarað þessu betur sjálfur. Ég er sammála hverju einasta orði og ég fagna því að hann skuli tala skýrt í þessu máli. Ég vona að Norðmenn séu að hlusta þannig að þeir fái þessi skilaboð. Ég tel löngu tímabært að talað sé við þá skýru máli hvað varðar Svalbarðasvæðið og hvað varðar réttindi okkar þar, ekki bara um síld, herra forseti, heldur líka um rækjuveiðar, veiðar á grálúðu, veiðar á þorski og jafnvel ýsu. Við eigum skýlausan rétt til þessa hafsvæðis, bæði sögulegan rétt og líka landfræðilegan rétt. Norðmenn hafa ekki rétt til að leggja undir sig 830 þús. ferkílómetra hafsvæði, hafsvæði í kringum eyjaklasa sem fram til 1920 var álitinn vera svokallað terra nullius, þ.e. einskismannsland, þeir hafa engan rétt til þess. Ef svo fer að ekki náist samningar við Norðmenn, en ég reyndar vona að góðir samningar náist og helst miklu betri samningar en við höfum haft fram að þessu, hljótum við að verða að láta sverfa til stáls, því miður.

Ég álít Norðmenn vera eina af okkar fremstu vinaþjóðum, þeir eru það svo sannarlega og hafa alltaf verið og munu verða í framtíðinni. En enn og aftur minni ég á að ef t.d. góðar vinaþjóðir eins og Norðurlandaþjóðirnar, Danir og Norðmenn á sínum tíma varðandi Jan Mayen og kannski hugsanlega núna Íslendingar og Norðmenn varðandi Svalbarða, ná ekki lendingu í samningaviðræðum er engin önnur leið fær nema dómstólaleiðin. Það er sú leið sem siðmenntaðir menn velja til að ná lendingu í deilumálum sínum og það ætti að koma þeim skilaboðum hið fyrsta mjög skýrt til Norðmanna að ef þeir voga sér að taka einhver af skipum okkar í sumar, ef ekki nást samningur um síldina á Svalbarðasvæðinu, muni málið fara beint í mikla hörku.