Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 20:42:25 (6222)

2004-04-06 20:42:25# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[20:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka umræðuna sem hér hefur farið fram. Ég geri mér grein fyrir því að hv. þingmenn hafa ekki að öllu leyti verið sáttir við ræðu mína og er í sjálfu sér ekkert við því að gera. En hvað sem því líður hefur ræðan framkallað gagnleg skoðanaskipti sem ég tel að hafi verið mikilvæg, og jafnvel þótt mönnum líki ekki ávallt hvernig hlutir eru orðaðir hefur það verið afstaða mín að mikilvægt sé að orða hlutina skýrt þannig að þeir verði ekki misskildir, þó að ég verði að segja að sumt hafi verið eitthvað misskilið í máli mínu en það er eins og gengur. (Gripið fram í: Af því að það sé barnalegt hjá þér?) Ja, kannski er ég barnalegur, hv. þm., það má vel vera og það verður þá að hafa það. En það er oft auðveldara að skilja börn en fullorðna og það er ekki alltaf gott þroskamerki að gleyma því að börn eru yfirleitt skýrari í málflutningi sínum en við sem eldri erum og hafa ekki lært þá iðju margra fullorðinna að tala fremur óskýrt. Og stundum á það við um stjórnmálamenn að það er erfitt að skilja þá.

En þar sem ég vildi nota minn stutta tíma til að fara aðeins yfir málið, ég get því miður ekki svarað öllu því sem til mín hefur verið beint vegna tímaleysis, vildi ég aðeins segja vegna þess að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að ég hefði verið að leggja að jöfnu það sem gerðist í Kosovo, í Bosníu, Afganistan og Írak. (ÖS: Varðandi afstöðu Samf.) Ég var ekkert að leggja þetta að jöfnu. Ég var að segja það, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að fulltrúi Samf. í þessari umræðu, hv. þm. Jóhann Ársælsson, skýrði frá því og var að gagnrýna mig fyrir það að við hefðum stutt aðgerðirnar í Bosníu og Kosovo. Þá minnti ég hv. þm. á það sem var staðfest af formanni Samf., hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að þær aðgerðir hefðu verið studdar af Samf. Síðan kemur hv. þm. Jóhann Ársælsson og segist ekki hafa stutt þær aðgerðir, þannig að hann var því ekki aðeins að gagnrýna utanrrh. heldur sinn eigin flokk. Ég tel nú í sjálfu sér að hv. þm. Jóhann Ársælsson ætti að ræða meira um þetta á fundum í Samf. áður en hann fer að gagnrýna utanrrh. jafnharkalega fyrir þessi mál og hann gerði, því að hann taldi að hér hefði verið um meiri háttar stefnubreytingu í utanríkismálum að ræða, meiri háttar stefnubreytingu sem hefði brotið allt sem menn hefðu áður staðið fyrir og vitnaði þar sérstaklega til Bjarna Benediktssonar, sem var farsæll forsrh. og foringi hér um langa tíð.

[20:45]

En það liggur alveg ljóst fyrir að þetta var í fyrsta skipti sem þær aðstæður komu upp að við Íslendingar þurftum að taka afstöðu til þess hvort við ættum að styðja slíkar aðgerðir Atlantshafsbandalagsins. Sú aðstaða var ekki uppi fyrr, fyrrum utanríkisráðherrar og forsætisráðherrar stóðu aldrei frammi fyrir þessu og voru aldrei í þessari stöðu.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði hér margt gott um varnar- og öryggismál og mér þykir mikilvægt að Samf. leggi áherslu á þau mál. Ég tel það mikilvægt. En hann sagði að það ríkti algjört stefnuleysi íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Hér hefur verið kallað eftir því í umræðunum, m.a. af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, að við skilgreindum hvað væru trúverðugar varnir.

Það liggur alveg ljóst fyrir að grundvöllurinn í þeim er aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og gagnkvæmar skuldbindingar þjóða Atlantshafsbandalagsins í þeim efnum. Þar er um algjört grundvallaratriði að ræða.

Í öðru lagi er það varnarsamningurinn, þ.e. þær skuldbindingar sem Bandaríkjamenn hafa gagnvart Íslandi í því sambandi, og það hefur verið okkar skýra afstaða að hér verða að vera sýnilegar varnir, þá ekki síst sýnilegar loftvarnir. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók undir að það væri nauðsynlegt.

Af hverju þurfum við sýnilegar varnir? Við þurfum þær hér á landi eins og í öllum öðrum löndum, m.a. vegna þess að við vitum ekki nákvæmlega hvað getur komið upp. Menn eru alltaf að kalla: Hvar er hættan, hvar er ógnin? Sumir halda því fram að ógnin sé engin, það eru rök sem ég hef oft heyrt í þessari umræðu, og þess vegna þurfi ekki varnir. Við vitum því miður ekki hver ógnin er. Og hún er enn þá óvissari í dag en fyrir nokkrum árum. Þar kemur til hin breytta heimsmynd, hryðjuverkin og allt það sem þar hefur komið upp.

Það vill svo til að þessar skoðanir okkar eru studdar af aðilum innan Atlantshafsbandalagsins þar sem því er haldið fram að það verði að staðsetja loftvarnir á Íslandi. Nú hefur verið ákveðið af hálfu Atlantshafsbandalagsins að staðsetja loftvarnir í Eystrasaltsríkjunum. Hvernig ætlar Atlantshafsbandalagið að standa undir því? Þeir ætla að gera það fyrst í stað með því að biðja Belga að vera þar í þrjá mánuði. Síðan eiga hugsanlega að koma Hollendingar, Bretar, Þjóðverjar og jafnvel fleiri. Er það eitthvað sem okkur finnst að geti gengið hér á Íslandi? Ég segi nei.

Það er að sjálfsögðu mikil mótsögn í því að Bandaríkjamenn hafa verið í forustu þeirra þjóða sem hafa talið að það verði að vera sýnilegar loftvarnir í Eystrasaltsríkjunum ef þær eiga ekki að vera hér á landi. Það liggur alveg ljóst fyrir af hálfu Bandaríkjamanna að þeir vilja halda áfram að ræða þessi mál þegar þeir hafa lokið við stefnumörkun sína varðandi herafla Bandaríkjanna erlendis. Þeirri vinnu er ekki lokið af þeirra hálfu. Það er þá plagg eða afstaða sem þeir vilja ræða við bandalags- og vinaþjóðir sínar.

Við bíðum eftir því að þeirri vinnu ljúki. Full samstaða var um að þetta gerðist með þessum hætti. Það er á þessum sama grundvelli sem þeir eru að hefja væntanlega viðræður við Þjóðverja um þessi mál.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði jafnframt að við yrðum að taka meiri ábyrgð á okkar innra öryggi og að styrking á sérsveit ríkislögreglustjóra hefði komið eins og af himnum ofan, eins og hún hefði verið einhver himnasending. Það var að sjálfsögðu mál sem var búið að ræða lengi. (Gripið fram í: Ekki ...) Það er afskaplega merkilegt oft hér á hv. Alþingi að stundum kalla menn eftir eflingu lögreglunnar en í umræðunni um það mál heyrði ég að margir gerðu gys að því.

Þetta er að sjálfsögðu þáttur í stærra máli. Einn hluti er eftirlit með þeim útlendingum sem koma til landsins. Eftirlit á Keflavíkurflugvelli hefur verið stóraukið og það er fylgst mun betur með því sem þar gerist og því fólki sem kemur inn til landsins. Ég hef líka heyrt gagnrýni hér á hv. Alþingi í því sambandi. Það liggur t.d. fyrir að myndir eru teknar af þeim sem koma inn til landsins og það er hægt að rekja það. Allt er þetta hluti af okkar innra öryggi og eftirliti.

Það liggur fyrir að við tökum þátt í umræðum og aðgerðum á vegum Atlantshafsbandalagsins. Það er líka ljóst að við höfum tekið virkan þátt í slíkum umræðum innan Evrópu vegna þess að við erum hluti af Schengen-svæðinu. Það var mjög mikilvægt skref í sambandi við öryggismál á Íslandi að við skyldum gerast aðilar að Schengen-svæðinu. Þar þurfa að gilda samræmdar reglur, sambærilegar reglur í öllum löndum, og það styrkir stöðu okkar. Það er alveg ljóst að við eigum í vændum vaxandi samstarf á sviði öryggismála, bæði við Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið, við Evrópusambandið vegna þess að við erum aðilar að Schengen-svæðinu, og ég vænti þess að það geti orðið gott samstarf um það.

Hv. þm. sagði að við ættum að taka að okkur eftirlit á höfunum. Ég er ekki sammála því. Ég tel að við Íslendingar getum ekki tekið að okkur einir og sér eftirlit á höfunum hér í kringum Ísland. Við höfum þar notið samstarfs við nágrannaþjóðir okkar, við Bandaríkjamenn, Breta, Norðmenn, Rússa, og við þurfum áfram á því að halda að Bandaríkjamenn samkvæmt varnarsamningnum styðji okkur í því eftirliti.

Við höfum hins vegar ákveðið að láta byggja nýtt varðskip, sem er mikilvægt að geti gerst sem fyrst, en við höfum af fjárhagsástæðum ekki getað ráðist í það enn sem komið er. Það liggur líka ljóst fyrir að við munum í framtíðinni þurfa að styrkja þyrlusveit okkar og Landhelgisgæsluna um leið en við höfum jafnframt verið með æfingar á Norður-Atlantshafi sem varðar samstarf þjóða að því er varðar björgun á hafinu. Þessar æfingar hafa verið á vegum Atlantshafsbandalagsins, þ.e. með samvinnu um frið. Þar hafa Rússar tekið þátt. Við höfum líka verið í sambærilegri æfingu um almannavarnir þannig að þessi vinna er í gangi en ég er þeirrar skoðunar að við getum ekki einir og sér annast allt hafsvæðið umhverfis Ísland. Ég á kannski ekki heldur von á að hv. þingmaður hafi beinlínis átt við það, ég vil ekki gera honum það. Ég vildi samt skýra afstöðu mína í þessu sambandi.

Ég er sammála honum í því að við þurfum að taka þessi mál að okkur í meira mæli en við höfum gert hingað til og ég á frekar von á því að það hafi verið það sem hann átti við.

Ég vil svo endurtaka þakkir mínar til hv. þingmanna fyrir þessa umræðu. Það hefur komið hér fram að ýmislegt hefur breyst í utanríkisstefnu Íslendinga, það er rétt. Það er margt sem kemur til, þær breytingar eru fyrst og fremst vegna breyttra aðstæðna, vegna vaxandi mikilvægis utanríkismála og mikilvægis þess að við Íslendingar látum að okkur kveða í alþjóðasamhengi. Þannig gætum við best hagsmuna okkar og þannig leggjum við mest af mörkum til friðar og meiri mannréttinda í heiminum.