Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 20:57:27 (6223)

2004-04-06 20:57:27# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[20:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Það eru nokkrir annmarkar á þeim möguleikum sem við höfum til þess að ræða mál af þessu tagi. Hér hefur hæstv. utanrrh. lagt fram mikla skýrslu og er að kveðja þingið sem utanrrh. að því marki að hann mun ekki aftur leggja fram skýrslu af því tagi. Sú skýrsla eðli máls samkvæmt er yfirgripsmikil, hún tekur á öllum þáttum utanríkismála.

Ég tel sem formaður stórs stjórnmálaflokks að það væri þörf á því að taka sérstaka umræðu um öryggis- og varnarmálin. Hvaða kost á ég til þess að knýja fram slíka umræðu? Þessi umræða sem við eigum hérna er ekki nógu hnitmiðuð að því marki að það sé hægt að taka það mál sérstaklega fyrir. Við höfum svo mikið undir.

Ég á þann kost að fara í hálftímautandagskrárumræðu um slík mál. Það er allt of lítið til að það sé hægt að leggja hornsteininn í utanríkisstefnu okkar undir í slíku máli.

Ég hef hins vegar lagt hér fram þingmál fyrir hönd Samf. þar sem boðið er upp á samstarf við ríkisstjórnina í þessum efnum vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að um þau sé rík samstaða. Ég tel að ýmis viðhorf sem við höfum gætu gagnast ríkisstjórninni. Til dæmis verð ég að segja að þegar hæstv. ríkisstjórn talar um ógnina sem að Íslendingum steðjar finnst mér sem sú umræða af hálfu hennar sé mjög oft ekki nægilega djúp.

Hvar hef ég möguleika til þess að koma þeim viðhorfum okkar, sem góður Íslendingur og þingmaður, á framfæri? Sum málanna eru líka þess eðlis að það er ekki hægt að ræða þau opinberlega. Jú, þegar hæstv. utanrrh. þóknast að koma til viðræðu við hv. utanrmn. er það hægt.

Ég vil einungis segja að ég tel að hér sé um svo mikilvægt mál að ræða að það þurfi að ræða það miklu dýpra og ítarlegar, eins og við erum að gera tilraun til að gera hér undir lok þessarar umræðu.

Ég er sammála sumu sem hæstv. ráðherra sagði og mjög ósammála öðru. Að lokum harma ég að ríkisstjórnin hefur ekki tekið í útrétta hönd okkar sem viljum vinna með henni að lausn í þessum efnum og að því að móta farsæla stefnu um þetta.