Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 20:59:42 (6224)

2004-04-06 20:59:42# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[20:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ekki mjög margir dagar síðan við áttum ítarlegar umræður um varnarmál og fleiri mál í utanrmn. Hv. þm. orðaði það svo að þegar utanrrh. ,,þóknast`` að koma þar til viðræðu --- ég veit ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma neitað því að mæta á fund utanrmn. eða taka þátt í umræðum um mikilvæg utanríkismál. Ég hef ávallt fagnað því þannig að mér finnst þetta óþarfi hjá hv. þingmanni.

Ég fagna hins vegar vaxandi áhuga Samf. fyrir varnar- og öryggismálum. Mér hefur oft fundist skorta mikið á þann áhuga. Það er mjög gott að þeir hafa vaxandi áhyggjur og áhuga á þeim málum og ég tek undir það með hv. þingmanni að þessi umræða, svo löng sem hún er orðin --- þessi málaflokkur er svo viðamikill að það væri full ástæða til að ræða ýmis mál með ítarlegri hætti á hv. Alþingi. Ég hef sem utanrrh. ekki neina sérstaka möguleika umfram aðra m.a. til að svara öllu því sem til mín er beint. Ég hef aðeins 15 mínútur í lokin og hef þó nýtt nánast hverja einustu mínútu sem ég hef haft til andsvara í dag til þess að koma fram bæði mótmælum við málflutning og upplýsingum um allt sem ég hef getað þannig að ég hef reynt að nýta þennan tíma. Það skal ekki standa á mér að finna nýtt form og breyttar áherslur í þessum efnum og ég fagna áhuga hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar til að auka þessa umræðu á hv. Alþingi.