Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 21:01:53 (6225)

2004-04-06 21:01:53# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[21:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. utanrrh. bregður ekki vana sínum. Af minni hálfu var þetta tilraun til þess að eiga málefnalega samræðu við hæstv. ráðherra um mál sem er mjög mikilvægt og í eðli sínu mjög flókið. Ég tel þörf á því að hæstv. utanrrh. ræði þá snúnu stöðu sem er komin upp í utanríkismálum, þ.e. þann þátt sem varðar öryggis- og varnarmál. Það þarf að ræða hann út frá tvíþættum sjónarhóli. Annars vegar vörnum út á við og hins vegar vörnum inn á við. Hæstv. utanrrh. gæti t.d. lagt fram skýrslu um stöðu mála og efnt til umræðu í þinginu og ég tel að hann ætti að gera það. Mér finnst ómögulegt að hið háa Alþingi fari heim eftir þennan vetur án þess að staðan sé rædd.

Til marks um hvað ég á við er t.d. þetta: Hæstv. utanrrh. reynir að toga svolítið til þau ummæli sem ég viðhafði um sérsveitina. Má ég minna hæstv. ráðherra á það, frú forseti, að þegar hugmyndin um sérsveitina og eflingu hennar kom fram þurftu menn að vera á fundi í Lögregluskólanum til þess að vita af því. Það var ekki gefin yfirlýsing um þessa stefnubreytingu í þinginu og þegar hæstv. dómsmrh. var inntur eftir hlutverki hennar beitti hann ekki þeim rökum sem tengjast vaxandi ógn á hermdarverkum eða gæslu á Keflavíkurflugvelli heldur glímu við undirheimalýð sem selur fíkniefni. Það var síðar sem hæstv. utanrrh. færði það inn í umræðuna.

Annað dæmi. Sveitir á vegum dómsmrh., eftir atvikum hæstv. utanrrh., eru vopnaðar. Þær eru vopnaðar á grundvelli undanþáguákvæðis í vopnalögum. Þurfum við ekki, frú forseti, að taka þessi mál til alvarlegrar yfirvegunar og endurskoðunar með tilliti til breyttrar stöðu.

Margt fleira gæti ég sagt en vil að lokum þakka hæstv. utanrrh. fyrir umræðuna og óska honum velfarnaðar á þeim nýja vettvangi sem hann heldur á innan skamms.