Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 21:04:43 (6227)

2004-04-06 21:04:43# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[21:04]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil að það komi eins skýrt fram og ég kem því frá mér að ákvörðunin um stuðning við Bosníuíhlutunina var stefnubreyting í utanríkismálum. Hæstv. ráðherra spurði í dag: Átti að beita neitunarvaldi? Nei. Það hefði líka verið stefnubreyting í utanríkismálum. Að mínu viti átti Ísland ekki að fara inn á þessa braut og ég er einfaldlega ósammála þeim sem telja það. Ég tel að þeir skuldi þjóðinni að útskýra með hvaða hætti Íslendingar ætla að undirbyggja með trúverðugleika ákvarðanir sínar hvað varðar hernaðarmálefnin í framtíðinni. Ég tel ekki að það hafi verið útskýrt með trúverðugum hætti hvernig slíkar ákvarðanir eru undirbyggðar og það þarf áreiðanlega meiri mannskap í utanrrn. og annars staðar sem getur veitt upplýsingar og er með þekkingu á þessum hlutum.

Hæstv. ráðherra talaði um að á Keflavíkurflugvelli þyrfti sýnilegar loftvarnir. Ég spyr: Er ekki nóg að hér sé vígbúnaðarstöð? Er ekki nóg að það liggi fyrir með skýrum og ákveðnum hætti, hér er Ameríka? Er ekki nóg að samkomulag við Ameríkumenn um hernaðarstöðina verði með þeim hætti? Mér finnst að ef menn hafa ekki betri útskýringar á því hver ógnin er en raun ber vitni ætti að vera nóg að hér sé vígbúnaðarstöð.