Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 21:06:59 (6228)

2004-04-06 21:06:59# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[21:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikilvægt að það komi skýrt fram að allar ákvarðanir innan Atlantshafsbandalagsins eru teknar með samhljóða niðurstöðu eða svokölluðum ,,consensus``. Annaðhvort eru menn með eða á móti. Þetta er oft erfitt form og kallar á mikinn þroska allra ríkjanna og í framhaldi af þeim ákvörðunum sem teknar voru að því er varðaði bæði Bosníu og Kosovo er alveg rétt hjá hv. þm. að það voru tímamót í sögu íslenskra utanríkismála. Það liggur alveg ljóst fyrir, ég er sammála honum um það. Þá ákváðum við að Ísland gerðist aðili að hermálanefnd Atlantshafsbandalagsins. Við höfðum ekki verið aðilar að henni áður. Nú tökum við þátt í því samstarfi, tökum þátt í þeim fundum og fáum allar upplýsingar í gegnum þá fundi, í gegnum Atlantshafsbandalagið. Það liggur líka ljóst fyrir að við höfum tekið mun virkari þátt í starfi Atlantshafsbandalagsins, ekki síst með friðargæslu okkar. Það starf okkar Íslendinga er mikils metið innan Atlantshafsbandalagsins, í Bosníu, Kosovo og væntanlega fljótlega í Afganistan. Okkar fólk hefur staðið sig afburða vel og hlotið mjög góðan vitnisburð í því starfi. Við höfum sýnt fram á að fámenn þjóð getur tekið fullan þátt í friðargæslu að koma á friði án þess að viðkomandi þjóð hafi herlið.