Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 21:09:07 (6229)

2004-04-06 21:09:07# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[21:09]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Við tókum ekki þátt í starfi hermálanefndarinnar. Hvað þýddi það? Það hlýtur að hafa þýtt að menn hafi ekki talið ástæðu til þess miðað við þá stefnu sem rekin var af hendi stjórnvalda á Íslandi. Hæstv. ráðherra segir að menn séu annaðhvort með eða móti. Hvar voru þá Íslendingar þegar þeir tóku ekki þátt í starfinu? Ég geri ráð fyrir að skilaboðin hafi verið: Íslendingar munu ekki taka þátt í starfi hermálanefndarinnar en fylgja eða láta óátaldar þær niðurstöður sem menn komast að. Ég held að þjóðin hafi öll staðið í þeirri meiningu og ég veit ekki betur en það hafi verið skilaboðin frá hendi stjórnvalda til íslensku þjóðarinnar allan tímann að við tækjum ekki þátt í ákvörðunum af þessu tagi. Ég hef staðið í þeirri meiningu að þegar ákvörðunin var tekin á sínum tíma hafi það verið stefnubreyting og mér finnst hæstv. ráðherra hafa verið að lýsa þeirri stefnubreytingu í dag og með orðum sínum áðan að þá hafi menn tekið ákvörðun um að taka þátt í starfi hermálanefndarinnar.

Ég tel að það hafi verið röng ákvörðun og þýði að nú verði menn að ganga lengra fram en hingað til til að undirbyggja ,,skynsamlegar ákvarðanir`` í hermálum.