Þjónusta við varnarliðið

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 13:34:39 (6232)

2004-04-14 13:34:39# 130. lþ. 96.1 fundur 743. mál: #A þjónusta við varnarliðið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi JGunn
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[13:34]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson):

Herra forseti. Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. utanrrh. varðandi þjónustu íslenskra aðila við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Það er tilfinning þeirra sem gerst til þekkja að verulegur samdráttur hafi orðið á sölu þjónustu til varnarliðsins og er þessi fyrirspurn liður í því að reyna að fá fram upplýsingar um hver staða mála er í samskiptum varnarliðsins við innlenda aðila. Jafnvel er talið að samdráttur stærri og smærri verktaka sem séð hafa varnarliðinu fyrir þjónustu geti numið allt að helmingi í veltu og starfa á þeim tíma sem um ræðir og munar nú um minna í ekki stærra samfélagi en á Suðurnesjum.

Þetta er ekki fyrsta fyrirspurnin sem ég beini til hæstv. utanrrh. um málefni varnarliðsins og verður væntanlega ekki sú síðasta svo lengi sem ekki er hægt eftir öðrum leiðum að fá beinar og milliliðalausar upplýsingar frá stjórnvöldum um þá alvarlegu stöðu sem við þeim blasir sem bæði hafa unnið beint og óbeint fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli um áratuga skeið.

Það hefur vakið undrun okkar sem störfum að sveitarstjórnarmálum hversu ónæm stjórnvöld virðast vera fyrir þeim samdrætti sem nú er staðreynd og í engu sér þess stað að einhver vinna sé komin í gang af þeirra hálfu til að bregðast við hinum mikla samdrætti sem nú er orðinn og ekki hafa þau heldur komið áleiðis neinum upplýsingum um hvers sé að vænta í framtíðinni.

Það er ekki ásættanlegt að svara til margra mánaða að verið sé að bíða eftir því að stjórnvöldum í Bandaríkjunum þóknist að ræða í alvöru við íslensk stjórnvöld um framtíð varnarstöðvarinnar á Miðnesheiði. Í það minnsta hlýtur það að vera skylda íslenskra stjórnvalda að setja af stað einhverja vinnu sem miðar að því að skoða hvaða kostir eru á einhverjum mótvægisaðgerðum við minnkandi starfsemi varnarliðsins. Sú vinna á að sjálfsögðu að fara fram í samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu sem hafa ítrekað reynt að fá svör frá stjórnvöldum um þessi mál án árangurs.

Rétt er að minna á að stjórnarliðar felldu tillögur Samf. í tengslum við fjárlagagerð þessa árs um heimild til sölu hlutafjár í Hitaveitu Suðurnesja hf. og átti samkvæmt henni að nota það fé sem þannig fengist til uppbyggingar atvinnutækifæra á Suðurnesjum. Enginn jákvæður vilji þar, herra forseti, enginn.

Umsvif varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafa mótað að talsverðu leyti atvinnuumhverfið á Suðurnesjum og er það staðreynd sem ekki verður neitað. Það hefur óneitanlega haft áhrif á atvinnulíf neðan flugvallargirðingar að hafa svo stóran og sterkan atvinnurekanda og þjónustukaupanda sem varnarliðið hefur verið í gegnum tíðina í túnfætinum, og Suðurnes hafa oft fengið þau skilaboð að ekki hafi verið nein þörf á sértækum aðgerðum vegna þess að við hefðum herinn. Til þess að hægt sé að meta hvernig best er að bregðast við þurfa að liggja fyrir nægar og réttar upplýsingar og því er spurt:

Hversu mikið hefur starfsemi íslenskra aðila sem sinna þjónustu við bandaríska varnarliðið dregist saman frá því að bókun við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna, sem kvað á um fyrirkomulag starfseminnar, rann út árið 2001?

Óskað er upplýsinga um fækkun starfa og tekjutap, jafnt hjá opinberum aðilum sem einkaaðilum, innan varnarsvæðis sem utan.