Þjónusta við varnarliðið

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 13:37:52 (6233)

2004-04-14 13:37:52# 130. lþ. 96.1 fundur 743. mál: #A þjónusta við varnarliðið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[13:37]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Upplýsingar um það mál sem spurst er fyrir um liggja fyrir fyrir árin 2001, 2002 og 2003 og það eru að sjálfsögðu opinberar upplýsingar. Þessar upplýsingar berast reglulega til utanrrn. og til Seðlabankans. Upplýsingar varðandi fyrsta ársfjórðung 2004 liggja væntanlega fyrir núna í maímánuði.

Árið 2001 nam heildarkostnaður varnarliðsins sem greiddur var til innlendra aðila 124 millj. dollara, 131 millj. dollara árið 2002 og 156 millj. bandaríkjadala árið 2003. Ef heildarkostnaður er reiknaður í íslenskar krónur á meðalgengi hvers árs kemur í ljós að árið 2001 var kostnaður varnarliðsins sem greiddur var til íslenskra aðila 12,1 milljarður kr., 11,9 milljarðar árið 2002 og 11,9 milljarðar árið 2003. Það má því vera ljóst af þessum tölum að ekki hafa orðið verulegar breytingar á þessu tímabili, þ.e. tímabilinu 2001--2003. Þegar launakostnaður er dreginn frá var innlendur kostnaður varnarliðsins 8,3 milljarðar 2001, 7,4 milljarðar 2002 og 7,6 milljarðar árið 2003.

Í fyrirspurninni er einnig spurt um fækkun starfa og tekjutap hjá opinberum aðilum og einkaaðilum frá árinu 2001. Hvað varðar fækkun starfa er einungis hægt að svara því hversu mikil fækkun hefur orðið á íslenskum starfsmönnum sem vinna hjá varnarliðinu. Í desember árið 2001 voru íslenskir starfsmenn varnarliðsins 889, 905 í desember 2002 og 883 í desember 2003. Í mars árið 2004 var starfandi 791 starfsmaður hjá varnarliðinu og fækkunin í mars er tilkomin vegna uppsagna varnarliðsins á um 100 starfsmönnum í október sl.

Samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands, og hér er um opinberar tölur að ræða sem hv. þm. getur að sjálfsögðu ávallt nálgast, var hlutdeild varnarliðsins 3,7% af útflutningstekjum árið 2001, 1,6% af landsframleiðslu. Árið 2002 var hlutdeildin 3,5% af útflutningstekjum, 1,5% af landsframleiðslu og 2003 var hlutdeildin 3,9% af útflutningstekjum og 1,5% af landsframleiðslu. Af þessum tölum sést að hlutdeild varnarliðsins í þjóðarbúskapnum hefur verið tiltölulega stöðug á umræddu tímabili. Varnarliðið kaupir vörur og þjónustu af fleiri hundruð fyrirtækjum og einstaklingum á hverju ári. Ekki er hægt að svara því hvernig starfsmannaþróun og afkoma hefur verið í einstaka fyrirtækjum, m.a. vegna þess að flest þeirra skipta ekki aðeins við varnarliðið, heldur við fleiri aðila.

Ef hins vegar eru teknar saman greiðslur til fjögurra stærstu verktaka sem unnu fyrir varnarliðið á árunum 2001--2003 kemur í ljós að heildargreiðslur beint til þeirra samkvæmt gögnum varnarliðsins voru 35,8 millj. bandaríkjadala á árinu 2001, 36,1 millj. árið 2002 og 33,3 millj. árið 2003.

Að því er varðar þá fullyrðingu hv. þingmanns að stjórnvöld séu ónæm fyrir því ástandi sem er á Suðurnesjum er að sjálfsögðu um rakalausar fullyrðingar að ræða, enda studdi hann þær engum gögnum. Við fylgjumst að sjálfsögðu vel með því sem er að gerast og það eru sem betur fer ýmis áform uppi á Suðurnesjum sem annars staðar í landinu um atvinnuuppbyggingu. Hins vegar verða menn að hafa úthald og þolinmæði til að ganga í gegnum þær breytingar sem nú eru í þessum málum sem og aðrar breytingar í þjóðfélaginu og alþjóðamálum. Það veit hv. þm. ósköp vel. Það er mikið breytingaskeið í gangi og menn þurfa að vinna á því og það eru stjórnvöld að gera. Ég er satt best að segja undrandi á því að hann skuli þurfa að biðja um þessar upplýsingar sem liggja að langmestu leyti fyrir með þeim formála sem hann hafði og er, held ég, afskaplega lítt hjálplegt að því er varðar það ástand sem þarna er til staðar.