Búnaður og húsnæði á varnarsvæðinu

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 13:57:51 (6242)

2004-04-14 13:57:51# 130. lþ. 96.2 fundur 744. mál: #A búnaður og húsnæði á varnarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[13:57]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Það skiptir miklu máli í allri umræðu um atvinnumál og stöðu hersins á Suðurnesjunum hvaða fyrirætlanir eru og verða uppi um nýtingu á því íbúðarhúsnæði sem kann að liggja eftir varnarliðið ef um frekari fækkun verður að ræða í liðinu. Þessi málefni verður að ræða umbúðalaust. Þó að hæstv. utanrrh. bregðist við þessari ágætu umræðu eins og hvumpinn foli verður samt sem áður að tala um þessi mál. Þarna er um að ræða íbúðarhúsnæði fyrir þúsundir manna og áhrif þess á fasteignamarkaðinn á Suðurnesjunum eru augljós ef það kæmi fyrirvaralítið inn á markaðinn. Fasteignaverð mundi hrynja.

Því væri fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. utanrrh. til þess hvernig hann telur best að nýta þetta húsnæði til hagsbóta fyrir byggðina suður með sjó og til hagsbóta fyrir Suðurnesjamenn alla. Það viðhorf væri mjög gott að fá inn í þessa umræðu svo að menn geti rætt yfirvegað í framhaldinu.