Búnaður og húsnæði á varnarsvæðinu

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 13:59:02 (6243)

2004-04-14 13:59:02# 130. lþ. 96.2 fundur 744. mál: #A búnaður og húsnæði á varnarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála því sem kom fram í máli hæstv. utanrrh. áðan. Auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um varnir Íslands. Við megum ekki gleyma því. Allt annað kemur í 2., 3. og 4. sæti. Þetta snýst fyrst og fremst um öryggismál og varnarmál og trúverðugleika öryggis- og varnarmála Íslendinga út á við. Það finnst mér mjög mikilvægur punktur einmitt núna á þessum síðustu og verstu tímum þegar hryðjuverkaváin virðist vera að færast, því miður, sífellt nær okkur.

Ég hjó áðan eftir því í máli hæstv. utanrrh. að hér hefði verið stödd til nokkuð langs tíma kafbátaleitar- og skipaleitarvél frá hollenska sjóhernum, að ég ætla. Það vekur upp spurningu í mínum huga --- ég fer reyndar svolítið yfir þetta í grein í Fréttablaðinu í dag þar sem ég reyni einmitt að velta fyrir mér stöðunni og framtíðarmöguleikum okkar --- það væri gaman að heyra hæstv. utanrrh. segja eitthvað um það: Eru hugsanlega einhverjir fletir á auknu varnar- og öryggissamstarfi við aðrar NATO-þjóðir en Bandaríkjamenn?