Markaðssetning dilkakjöts erlendis

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:08:26 (6247)

2004-04-14 14:08:26# 130. lþ. 96.3 fundur 860. mál: #A markaðssetning dilkakjöts erlendis# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Utanríkisþjónustan hefur átt gott og farsælt samstarf við útflytjendur lambakjöts í gegnum tíðina. Af nýlegum verkefnum ber t.d. að nefna samstarf á vettvangi verkefnisins ,,Iceland Natural`` í Bandaríkjunum þar sem sala á lambakjöti og kynning á Íslandi og öðrum íslenskum afurðum, svo sem vatni og skyri, hafa verið samtvinnuð. Á síðasta ári var enn fremur haldin kynning á vegum sendiráðsins í Kaupmannahöfn, m.a. í samstarfi við Sláturfélag Suðurlands, sem liður í sölu- og kynningarátaki þess í Danmörku.

Þá hefur utanrrn. um nokkurt skeið lagt hart að færeyskum stjórnvöldum að leysa úr vandamálum tengdum dýraheilbrigðiseftirliti við innflutning á landbúnaðarafurðum til eyjanna en nú um stundir er nauðsynlegt að flytja afurðir frá Íslandi í gegnum Danmörku til Færeyja.

Hinn 3. september árið 2003 skipaði landbrh. nefnd um vanda sauðfjárbænda. Nefndina skipuðu Ari Teitsson, þáv. formaður Bændasamtakanna, Drífa Hjartardóttir alþm., Jóhannes Sigfússon, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri í landbrn., og Þórólfur Friðriksson, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, sem jafnframt var formaður nefndarinnar.

Hinn 5. nóvember sl. skilaði nefndin tillögum í 13 liðum. Meðal tillagna var eftirfarandi tillaga sem snýr að mínu ráðuneyti:

,,Lagt er til að með aðstoð við markaðsstarf erlendis leggi utanríkisráðuneytið til starfsmann er eingöngu hafi það hlutverk að greiða fyrir markaðssetningu dilkakjöts í samstarfi við útflytjendur. Starfsmaðurinn hafi það vægi innan ráðuneytisins sem nauðsynlegt er talið. Starfið verði tekið til endurmats að þremur árum liðnum.``

Í fjárlögum ársins 2004 var 10 millj. úthlutað til utanrrn. í þessu skyni. Undanfarið höfum við í utanrrn. ásamt landbrn. fundað með útflytjendum og fleiri hagsmunaaðilaum þar sem farið hefur verið yfir það hvernig umræddum fjármunum sé best varið. Þessir fundir voru gagnlegir og munu nýtast okkur við endanlega ákvörðun um ráðstöfun þess fjár sem utanrrn. var úthlutað á fjárlögum ársins en engar ákvarðanir hafa enn verið teknar í þeim efnum.

Að því er varðar spurningu númer tvö þá hafa, eins og segir í svari við fyrri spurningu, engar ákvarðanir verið teknar um ráðstöfun þeirra 10 millj. sem utanrrn. var úthlutað á fjárlögum þessa árs, hvorki varðandi mannaráðningar né annað.