Markaðssetning dilkakjöts erlendis

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:11:14 (6248)

2004-04-14 14:11:14# 130. lþ. 96.3 fundur 860. mál: #A markaðssetning dilkakjöts erlendis# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Tímabært er að lambakjötsfarsanum mikla í Framsfl. fari að ljúka og vopnaglamrið milli hæstv. ráðherra Guðna Ágústssonar og Valgerðar Sverrisdóttur þagni. Þetta vopnaglamur hlýtur, ef eitthvað er, að skemma fyrir því mikilvæga starfi sem það er að gera, enn eina úrslitatilraun til að koma sauðfjárræktinni á einhvern hátt til hjálpar eða bjargar, en eins og allir vita má segja að sauðfjárræktin hafi endanlega sigið á hliðina nú í stjórnartíð Framsfl. síðustu átta árin og margir sem sjá engar leiðir fyrir hana til að rétta sig við enda þótt ýmislegt sé lagt til.

Það hlýtur að vera mikilvægt að opinberu fé til þessa málaflokks sé vel varið, því fé sem varið er til markaðsstarfs erlendis. Því er spurning hvort svo sé þegar tvö ráðuneyti eru að bítast um bitana og skipta þeim kröftum og því fé sem varið er til markaðssetningar á lambakjöti erlendis þvert gegn vilja og óskum bændaforustunnar sem að sjálfsögðu vill veita því fé og þeim kröftum í einn farveg.