Markaðssetning dilkakjöts erlendis

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:12:45 (6249)

2004-04-14 14:12:45# 130. lþ. 96.3 fundur 860. mál: #A markaðssetning dilkakjöts erlendis# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:12]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Vandi sauðfjárbænda er mikill. Um það hefur verið fjallað ítarlega á hinu háa Alþingi í vetur. Hins vegar hefur minna verið fjallað um þá leið sem valin hefur verið, þ.e. útflutningsleiðina á dilkakjöti sem einhvers konar lausn fyrir sauðfjárbændur.

Sannleikurinn er sá, hæstv. forseti, að í útflutningnum er engin lausn vegna þess að sauðfjárbændur fá ekki meira í aðra hönd fyrir kjöt sitt. Markaðssetning á kjöti á heimsmarkaði er gífurlega stórt og erfitt mál og kostar firnamikla peninga. Eitt verkefni hefur verið í gangi til að markaðssetja kjöt í stórborgum vestan hafs og austan, og verandi sú lúxusvara og sú dýra vara sem íslenska dilkakjötið er segir það sig sjálft að það er mikið vandaverk að markaðssetja það þannig að hinn almenni neytandi erlendis telji sig geta keypt það. Nú hyggst hæstv. ríkisstjórn bæta enn í og ráða sérstakan starfsmann til utanrrn. til þess að flytja út meira kjöt. Ég hefði trúað þessu ef við værum stödd í Ráðstjórnarríkjunum. Er það ekki verkefni fyrirtækja og hagsmunaaðila, hæstv. forseti, að ráða starfsmann til þess að flytja út kjöt?