Markaðssetning dilkakjöts erlendis

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:18:46 (6253)

2004-04-14 14:18:46# 130. lþ. 96.3 fundur 860. mál: #A markaðssetning dilkakjöts erlendis# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er afskaplega undarlegt að heyra það á hv. Alþingi að umræða sé skaðleg. Ég held að það sé afskaplega gott að ræða þessi mál, þann árangur sem hefur náðst á undanförnum árum og áratugum í sölu lambakjöts og endurmeta stöðuna. Mér finnst það gagnlegt. En ég heyri að hv. þm. Jóhann Ársælsson telur það mjög skaðlegt og að það sé alveg út í hött að það skuli vera einhver umræða milli ráðuneyta.

Utanrrn. fer með utanríkisviðskiptamál og við erum einfaldlega að sinna kalli sem kemur frá ákveðinni nefnd sem er stofnað til í þessu skyni, skila samhljóða niðurstöðu og Alþingi ákveður samhljóða, eftir því sem ég best veit, að 10 millj. kr. skuli varið til utanrrn. í þessu skyni. Mér er ekki kunnugt um að nokkur þingmaður hafi greitt atkvæði gegn því og er ekki eðlilegt að við vinnum úr því verkefni? Utanrrn. kemur að sjálfsögðu á hverjum einasta degi að útflutningsmálum okkar. Við erum víða með viðskiptafulltrúa. Við erum með sendiráð víða um heim og eðlilegt að utanrrn. sinni þessu eftir því sem vilji sauðfjárbænda, landbrn. og annarra aðila gengur til og það er einfaldlega það sem við erum að gera. Ég hélt að það væri gagnlegt. Ég hélt að við værum einfaldlega að gera það sem Alþingi var að biðja okkur um og þess vegna séu þessi mál í mjög eðlilegum farvegi.

Við ætlum að sjálfsögðu ekki að fara að gera eitthvað sem er andstætt hagsmunum þessara aðila, hefur aldrei dottið það í hug. Þetta eru ekki miklir peningar. Utanrrn. hefur ekki mikla fjármuni til þess að sinna utanríkisviðskiptum og við munum að sjálfsögðu nýta þá fjármuni eftir því sem við best getum í samvinnu við landbrn., eins og við gerum í samvinnu við ráðuneytin almennt því að utanrrn. þjónustar önnur ráðuneyti miklu meir.