Þjálfun fjölfatlaðra barna

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:42:00 (6261)

2004-04-14 14:42:00# 130. lþ. 96.4 fundur 251. mál: #A þjálfun fjölfatlaðra barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Þokað örlítið í rétta átt. Það er rétt. Hvers vegna? Vegna þess að víða er að finna velvilja í kerfinu hjá starfsfólki sem sinnir þessum málum. En fyrst og fremst vegna baráttu aðstandenda fatlaðra barna. Þess vegna hefur þokað. Stjórnvöld hafa að mínum dómi því miður sofið á verðinum hvað þetta málefni snertir. Ég held því fram alveg blákalt að kerfið eða einstakir angar kerfisins, þættir, talist ekki við. Málefni fatlaðra og fatlaðra barna heyra undir mörg lög, mismunandi lagabálka, mismunandi ráðuneyti. Þar koma að félmrh., menntmrn., Tryggingastofnun, heilbrigðisstofnanir og loks eins og hæstv. félmrh. gat um koma einnig mismunandi starfsstéttir að þeim málum.

Hæstv. félmrh. sagði að margir þessara þátta heyri ekki undir ráðuneyti sitt. Í rauninni er það ekki alveg rétt, vegna þess að undir hann heyrir að sjá til þess að lögunum sé framfylgt og að fötluð börn njóti þeirra réttinda sem landslög bjóða. Ég spyr: Hvað er það sem veldur því að starfsstéttir sem eiga að sinna fötluðum börnum á leikskólum virðast ekki hreyfanlegar? Krefjast þess að foreldrar endasendist með börn sín, fötluð, til þess að fá þá þjónustu sem þörf er á, í stað þess að þær komi í skólana. Veldur þessu peningaþörf eða íhaldssemi, eða hvað er það sem veldur því?