Ráðgjafarnefnd við Hafrannsóknastofnun

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:46:03 (6263)

2004-04-14 14:46:03# 130. lþ. 96.6 fundur 604. mál: #A ráðgjafarnefnd við Hafrannsóknastofnun# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Lagaákvæði um Hafrannsóknastofnun ríkisins er að finna í lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna frá 1965. Í þeim lögum voru ákvæði um skipan ráðgjafarnefndar. Þeim ákvæðum var breytt með sérstökum lögum árið 1984 þar sem hlutverk ráðgjafarnefndarinnar fram að þeim tíma þótti of takmarkað og óljóst. Var því talið nauðsynlegt að gera hlutverk hennar víðtækara og starfssvið nákvæmara en áður hafði verið tekið fram.

15. gr. laganna eftir þá breytingu er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Við Hafrannsóknastofnunina er ráðgjafarnefnd. Ráðherra ákveður að fengnum tillögum stjórnar hvernig ráðgjafarnefndin skuli skipuð til fjögurra ára í senn. Nefndin kýs sér formann og á hann rétt til setu á fundum stjórnar með málfrelsi og tillögurétti.

Ráðgjafarnefndin fylgist með rekstri Hafrannsóknastofnunarinnar og er m.a. tengiliður milli hennar og sjávarútvegsins. Nefndin er forstjóra og stjórn til ráðuneytis. Hún skal fjalla um starfsáætlanir stofnunarinnar og gerir tillögur varðandi verkefnaval og starfshætti hennar.

Sjávarútvegsráðherra setur ráðgjafarnefndinni erindisbréf.``

Eins og heyra má hefur nefndin allmiklu hlutverki að gegna og eftir breytinguna var skipuð ný ráðgjafarnefnd fyrir tímabilið 1. júlí 1984 og gilti umboð hennar til 30. júní 1988. Önnur var skipuð strax á eftir með umboð frá 1. júlí 1988 til 30. júní 1992. Síðan hefur ekki verið skipuð ráðgjafarnefnd við Hafrannsóknastofnun í hartnær 14 ár.

Því fannst mér tilefni til þess að inna hæstv. ráðherra eftir því hvers vegna ekki hefði verið skipuð ráðgjafarnefnd við Hafrannsóknastofnun, sbr. 15. gr. laga sem ég las áðan um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Lagaákvæðið er skýrt og þar kemur fram að við Hafrannsóknastofnun er ráðgjafarnefnd þannig að mínu mati er ekki að sjá að það sé á mati eða valdi ráðherra að skipa ekki ráðgjafarnefndina.