Ráðgjafarnefnd við Hafrannsóknastofnun

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:52:59 (6265)

2004-04-14 14:52:59# 130. lþ. 96.6 fundur 604. mál: #A ráðgjafarnefnd við Hafrannsóknastofnun# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. 15. gr. laganna er mjög skýr og mér finnst alveg með ólíkindum að ráðgjafarnefndin skuli ekki hafa starfað því það er svo sannarlega þörf á því að fleiri komi að starfsemi Hafró. Ég er ekkert endilega að tala um fulltrúa hagsmunaaðila. Hvað með fulltrúa frá öðrum stofnunum sem stunda líffræðirannsóknir við t.d. Líffræðistofnun Háskóla Íslands? Hvað með sjálfstætt starfandi fiskifræðinga sem eru þó nokkrir hér á landi? Það er nefnilega svo, frú forseti, að það finnst mikil vitneskja um fiskifræði og hafrannsóknir utan veggja Hafró. Hún er ekki bara bundin við Skúlagötu 4 eins og reyndin virðist vera í dag. Það mætti líka endurskoða 11. gr. laganna sem kveður á um að það skuli bara vera fimm einstaklingar í stjórn Hafró. Af hverju eru ekki fleiri einstaklingar í stjórn Hafró, utanaðkomandi fólk úr þjóðfélaginu í staðinn fyrir eingöngu fulltrúa hagsmunaaðila, einn fulltrúa starfsmanna og ritara stjórnarinnar, sem mér skilst að sé aðstoðarmaður sjútvrh.? Það mætti fjölga í stjórn Hafró og að sjálfsögðu koma ráðgjafarnefndinni á fót hið fyrsta.