Ráðgjafarnefnd við Hafrannsóknastofnun

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:58:18 (6268)

2004-04-14 14:58:18# 130. lþ. 96.6 fundur 604. mál: #A ráðgjafarnefnd við Hafrannsóknastofnun# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:58]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka málefnalegar umræður um fyrirspurnina. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm., Magnúsi Þór Hafsteinssyni, að það er þekking og starfsemi á sviði hafrannsókna annars staðar en innan veggja Hafrannsóknastofnunarinnar og sjálfsagt að fá slíka aðila til samstarfs eða tengja þá við ráðgjafarnefndina. Hins vegar kveða lögin einnig á um að ráðgjafarnefndin skuli vera vettvangur samstarfs við atvinnugreinina sjálfa. Það má því ekki gera lítið úr þeim þætti eins og mér fannst hv. þm. gera. Ég held reyndar að það sé ekkert sérstaklega vel til þess fallið að hafa stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar stærri en hún er. Ég held að þar sitji mátulegur mannfjöldi.

Eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi var auðvitað ofmat Hafrannsóknastofnunar tilefni til þess að fara ofan í málin og ræða málin á víðum grundvelli og að sem flestir kæmu að því. Það var reyndar gert. Ég vil minna á í því sambandi að haldin voru tvö opin fyrirspurnaþing, reyndar með mismunandi formi. Á hinu fyrra var einmitt leiddur fjöldi sérfræðinga á ýmsum sviðum sem tengjast þeim atriðum sem að stofnstærðarmatinu koma og hið síðara var lokaniðurstaða á þeim hluta vinnunnar sem sneri sérstaklega að stofnstærðarmatinu.

Ég held að það hafi heppnast mjög vel og ég held jafnvel að við endurskoðun á erindisbréfi ráðgjafarnefndarinnar sé tilefni til þess að horfa til þeirra vinnubragða sem þarna voru tekin upp.