Opinber störf í sjávarútvegi

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:07:57 (6272)

2004-04-14 15:07:57# 130. lþ. 96.7 fundur 793. mál: #A opinber störf í sjávarútvegi# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða áhugaverða fyrirspurn að mörgu leyti. Ég verð þó að segja, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, að mér finnst ekki alveg rétt raðað upp. Rannsóknir og rannsóknaverkefni gætu sem best dreifst eftir því hvar þekking og staðhættir bjóða upp á slíkar rannsóknir. Ég nefni sem dæmi að það hefur lengi verið áhugi á því á Vestfjörðum að færa rækjurannsóknir til Ísafjarðar, svo tekið sé dæmi um atvinnustarfsemi sem býður upp á tilteknar rannsóknir. Þekkingin er örugglega til staðar vestur á fjörðum til þess að stunda rækjurannsóknir og fylgja þeim eftir. Þetta hefur verið áhugamál Vestfirðinga lengi og það tengist ekki endilega fjölda starfa heldur frekar þeim verkefnum sem menn telja sig geta sinnt með sem bestum hætti á ákveðnum svæðum landsins.