Opinber störf í sjávarútvegi

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:10:07 (6274)

2004-04-14 15:10:07# 130. lþ. 96.7 fundur 793. mál: #A opinber störf í sjávarútvegi# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi EMS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Fyrirspyrjandi (Einar Már Sigurðarson):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hinar sögulegu skýringar sem vissulega standa fyrir sínu. En þær sýna okkur helst að tími er kominn til að endurskoða málin og láta ekki söguna stýra okkur algerlega og stjórna.

Hins vegar kom svolítið athyglisvert fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og Guðjóni A. Kristjánssyni. Það er kannski skólabókardæmi um það sem gerist gjarnan í þingsölum þegar rætt er um flutning opinberra starfa. Það er kannski hluti af hinni sögulegu skýringu, sem hæstv. ráðherra nefndi þó ekki. Raunin er að ætíð þegar umræða hefst um þetta þá byrja þingmenn landsbyggðarinnar að kljást um hver skuli fara með störfin. Ég held að lausnin í þessu máli gæti verið að menn gerðu enn einu sinni tilraun til að fara faglega yfir hlutina og reyna að átta sig á því hvernig hægt er að koma hlutunum best fyrir. Það er auðvitað um það sem þetta snýst.

Það er augljóst að Eyjafjarðarsvæðið hefur ákveðna kosti fram yfir önnur landsvæði gagnvart því að hefja flutning opinberra starfa út á land, til að sýna fram á að það er hægt. Það er augljóst að ef það tekst vel þá getum við haldið áfram víðar. En einhvers staðar verður að byrja. Það liggur ljóst fyrir að það eru mikil rök fyrir því að ákveðin störf og ákveðnar stofnanir séu fluttar norður á Eyjafjarðarsvæðið. Sjávarútvegssviðið hlýtur þar að koma sterklega til greina, eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson benti hér á áðan varðandi háskólann. Þar eru auðvitað ákveðnar tengingar.

Það er líka hægt að læra af nágrannaþjóðum okkar. Í Noregi hafa menn gert þetta á skipulegan hátt. Þar hafa menn tekið mið af því í hverju svæðin væru sterkust. (MÞH: Alveg hárrétt.) Þessi einfalda aðferð, að styrkja svæði þar sem þau eru sterk fyrir, er líklegust til að skila árangri. Ekki bara það að færa störfin starfanna vegna, heldur færa þau í það umhverfi sem best hentar.

Ég er hins vegar sammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um að sú samþjöppun sem á stað á höfuðborgarsvæðinu er algerlega út úr öllu korti. Það þarf auðvitað að gera meira en bara að færa nokkrar stofnanir sjávarútvegsins norður á Eyjafjarðarsvæðið.