Tónlistar- og ráðstefnuhús

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:35:37 (6283)

2004-04-14 15:35:37# 130. lþ. 96.9 fundur 799. mál: #A tónlistar- og ráðstefnuhús# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og vil hvetja hana til dáða í þessum efnum því að auðvitað er orðið löngu tímabært að þetta tónlistarhús rísi í Reykjavík. Eins og þetta lítur út núna er skynsamlega haldið á málum. Það skiptir verulegu máli fyrir atvinnulíf á höfuðborgarsvæðinu að þetta hús komist í gagnið og að umfangsmiklar framkvæmdir annars staðar á landinu seinki ekki endilega þeim framkvæmdum sem tónlistarhúsið útheimtir.

Í þessari umræðu hefur málefni Íslensku óperunnar borið á góma. Það er afar mikilvægt að málefni Óperunnar verði leyst samhliða því að þetta tónlistarhús rísi. Það skiptir verulegu máli að yfirvöld menntamála hugleiði hvort Íslensku óperunni sé vel fyrir komið eins og nú er, en núna er hún í raun ekkert annað en sjálfstæður atvinnuleikhópur. Það verður að spyrja í því sambandi hvort ríkisvaldið eða yfirvöld mennta- og menningarmála hugleiði að búa til íslenska ríkisóperu.