Tónlistar- og ráðstefnuhús

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:39:09 (6286)

2004-04-14 15:39:09# 130. lþ. 96.9 fundur 799. mál: #A tónlistar- og ráðstefnuhús# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GunnB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góð svör. Eitt vakti athygli mína varðandi kostnað við þessa framkvæmd, þ.e. við tónlistarhúsið upp á 6,4 milljarða og að það ætti að vera í einkaframkvæmd þannig að framlög ríkisins verða væntanlega hverfandi ef nokkur. Þá er spurningin hvernig menn greiða það í framtíðinni. Einkaframkvæmd kostar. Það kostar að borga fyrir afnotarétt af mannvirkinu í ákveðin ár. Er þá samið til 25 ára og viðkomandi eiga húsið þá áfram eða munu ríki og borg eignast húsið eftir 25 ár, eða hvernig er þessi samningur eiginlega?

Ég fagna náttúrlega sérstaklega því að það á að byggja þetta tónlistarhús. Spurningin er hvort ekki megi skeika sex eða 12 mánuðum þannig að mesti kúfurinn af framkvæmdum annars staðar á landinu verði farinn áður en farið verður í þessa byggingu. Ég held að við þurfum aðeins að hugsa það því að hótelbyggingin, ráðstefnusalirnir og allt það plús þetta eru 12 milljarða framkvæmd þannig að það er ekkert smávegis í gangi á þessum stað.

Nú er verið að tala um að reisa aðrar hótelbyggingar þarna eða gistirými á miðbæjarsvæðinu og spurning er hvort of mikið framboð verði þar að lútandi. Það er alla vega mál sem þarf að hugsa. Framkvæmdir upp á 12 milljarða eru miklar framkvæmdir og munu skapa gífurlega þenslu, held ég, í byggingaiðnaðinum. En ég fagna enn og aftur að þetta sé loksins komið á koppinn og ég heyri að menntmrh. sýnir góðan vilja til að leysa vanda Óperunnar. Ég held að við megum ekki gleyma henni. Við eigum að reyna að nota tækifærið. Núna er tækifærið. Það er verra þegar við höfum siglt fram hjá þessum bautasteini sem þarna er verið að reisa.