Gjaldfrjáls leikskóli

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:43:35 (6288)

2004-04-14 15:43:35# 130. lþ. 96.10 fundur 835. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:43]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson):

Frú forseti. Þrátt fyrir að tæplega 20 þús. börn séu nú í leikskólum landsins gleymist þetta fyrsta skólastig oft. Það sést vel í þeirri umræðu sem nú er í samfélaginu um skólagjöld. Þá hugsa fáir til leikskólanna þar sem skólagjöld eru þó hæst. Nú geta skólagjöld í leikskóla oft verið um 30 þús. kr. á hverjum mánuði fyrir eitt barn. Það er alveg ljóst að slík gjöld, upp á tæplega 400 þús. kr. árlega, eru gríðarlega þungur baggi fyrir flestar fjölskyldur. Einn mánuður í leikskóla kostar svipað og eitt ár í háskóla.

Fjölskyldur leikskólabarna eru iðulega sá hópur sem hefur hvað þrengstu fjárráðin. Hér er oftast um að ræða unga foreldra sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið og hefja þátttöku á vinnumarkaðnum. Nú er það nær almenn regla að börn fara í leikskóla enda er það eðlilegur hluti af skólagöngu hvers barns. Um 90% allra tveggja ára barna og eldri eru í leikskóla. Þessi háu leikskólagjöld eru því mikil tímaskekkja og ber að afnema.

Lækkun eða afnám skólagjalda í leikskólum er einnig mikið jafnréttismál. Þegar börnin eru orðin tvö, hvað þá þrjú, á leikskólaaldri getur í mörgum tilfellum verið hagstæðara fyrir annað foreldrið að vera heima. Vegna kynbundins launamunar vill það oft verða móðirin. Þessi staðreynd hefur síðan aftur neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði og því myndast vítahringur.

Fæðingarorlof er nú samanlagt níu mánuðir og eftir þann tíma þurfa foreldrar að fara aftur á vinnumarkaðinn. Flestir leikskólar taka hins vegar við börnum frá tveggja ára aldri og því myndast a.m.k. 15 mánaða tímabil sem foreldrar þurfa að brúa með einhverjum hætti.

Á þessu tímabili leita margar fjölskyldur til dagforeldra. Slík þjónusta er hins vegar dýr og getur einn mánuður fyrir eitt barn kostað allt að 40 þús. kr. Á meðan leikskólar eru ekki fleiri en raun ber vitni er þjónusta dagforeldra mjög nauðsynleg. Það á hins vegar að sjálfsögðu að vera markmið að tryggja hverju barni vist á leikskóla frá níu mánaða aldri kjósi foreldrar svo. Eftirspurn eftir slíkri þjónustu er svo sannarlega til staðar. Samf. telur að það eigi að vera hlutverk almannavaldsins að greiða kostnað við leikskóla alveg eins og það er almannavaldsins að greiða fyrir grunnskólana. En þá þyrfti ríkisvaldið að koma til móts við sveitarfélögin með tekjustofna fyrir slíkri aðgerð.

Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. menntmrh. hvort hún sé tilbúin að beita sér fyrir gjaldfrjálsum leikskóla.