Gjaldfrjáls leikskóli

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:46:20 (6289)

2004-04-14 15:46:20# 130. lþ. 96.10 fundur 835. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson spyr: Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir gjaldfrjálsum leikskóla?

Þetta mál hefur ekki komið til umræðu innan menntmrn. enda er leikskólinn rekinn og styrktur af sveitarfélögunum. Það hefur ekki komið heldur til tals af minni hálfu að leikskólinn verði færður til ríkisins.

Ef ég leik mér aðeins með þetta og segi sem svo að ég ætli að beita mér fyrir því að hér verði gjaldfrjáls leikskóli hlýtur það að vera jafnframt undir þeim formerkjum að ríkið ætti að greiða þann hlut sem foreldrar greiða nú. Slíkt gæti þá gerst með tvennum hætti.

Í fyrsta lagi gæti ríkið tekið við rekstri leikskólans og stækkað útgjaldaramma sinn í þeim tilgangi að bjóða þar dvöl ókeypis.

Í öðru lagi gæti ríkið samið við sveitarfélögin um tilfærslu tekjustofna þannig að þeim verði gert fært að reka leikskólana án gjalds frá foreldrum. Kostnaðarauki ríkisins yrði sá sami með báðum aðferðum.

Þess má geta í þessu sambandi að kostnaður foreldra vegna leikskólagjalda nemur um 2,4 milljörðum kr. á ári og er það því sú upphæð er bæta yrði sveitarfélögunum ef leikskólinn yrði gjaldfrjáls. Jafnframt verður að hafa það hugfast að ef leikskólinn yrði gerður gjaldfrjáls hlyti samhliða að fylgja sú skylda að öll börn ættu trygga vist í leikskóla.

Árið 2002 voru samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar 16.282 börn í leikskólum landsins en börn á leikskólaaldri voru 25.149. Alls voru því 8.867 börn á leikskólaaldri ekki í leikskóla á árinu 2002.

Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga mundi kostnaður við byggingu viðbótarhúsnæðis til að hægt væri að tryggja öllum börnum leikskólavist nema um 11,5 milljörðum kr., ef miðað er við 200 þús. kr. kostnað á fermetra og 6,5 fermetra á barn, líkt og reglur kveða á um. Rekstrarkostnaður mundi einnig aukast til muna, ekki síst vegna starfsmannahalds. Líklega yrði aukning rekstrarkostnaðar meiri en meðaltalsaukning barna þar sem stærstur hluti barna yrði væntanlega í yngsta aldurshópnum þar sem gerðar eru meiri kröfur um fjölda starfsmanna.

Er það mat Sambands íslenskra sveitarfélaga að rekstrarkostnaður mundi aukast um 7,5 milljarða á ári miðað við þessar forsendur.

Þótt vissulega megi færa rök fyrir því að gott væri að leikskóli yrði gjaldfrjáls tel ég engu að síður að þessar tölur sýni fram á að það eru engar efnahagslegar forsendur fyrir því að gera leikskólann gjaldfrjálsan.