Endurgreiðsla námslána

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:08:56 (6303)

2004-04-14 18:08:56# 130. lþ. 96.11 fundur 706. mál: #A endurgreiðsla námslána# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:08]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég minni á að fyrstu hugmyndir um málið sem spurt er um í fyrirspurninni komu fram í byggðaáætlun sem stjórn Byggðastofnunar tók saman árið 1997 og sendi hæstv. forsrh. Sú tillaga var borin fram á Alþingi í framhaldinu og samþykkt í þingsölum árið 1998. Málið kom því fram fyrir sex árum í þinginu og þingið hefur afgreitt það af sinni hálfu með pólitískri yfirlýsingu um stuðning við þetta mál.

Ég hvet því hæstv. ríkisstjórn til aðgerða í þessum efnum. Ég vil frekar athafnir en orð á þessari stundu. Við höfum nógu lengi rætt þetta mál og og oft glímt við mál sem ekki hafa verið mjög einföld í framkvæmd. Það er ekki einfalt að setja 3,5 milljarða kr. úr ríkissjóði til atvinnuuppbyggingar á Reykjavíkursvæðinu í gegnum tónlistarhús. Það er umdeilt mál en við látum okkur hafa það þegar markmiðin eru góð.