Endurgreiðsla námslána

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:11:01 (6305)

2004-04-14 18:11:01# 130. lþ. 96.11 fundur 706. mál: #A endurgreiðsla námslána# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:11]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hér fer fram athyglisverð umræða um málefni sem verið hefur í gangi í sjö ár. Ríkisstjórnin er búin að lýsa því yfir að hún vilji fara þessa leið en svo koma menn upp og tala út og suður, hæstv. ráðherra á varúðarnótunum og hv. þm. Pétur Blöndal á móti.

Ég segi eins og er: Hvers vegna eru menn ekki búnir að hreinsa loftið í þessu máli? Af hverju hafa menn ekki lagt upp í þá göngu og hvaða annað ráð vilja menn taka upp í staðinn? Menn eru togaðir um á asnaeyrunum með umræðu um byggðamál þegar svona er að málum staðið. Árum saman velkjast menn um með sama málið án þess að nokkuð gangi en síðan kemur bara skýrt fram að í raun er svo mikil andstaða við málið í stjórnarflokkunum að það nær ekki fram að ganga.