Endurgreiðsla námslána

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:15:32 (6308)

2004-04-14 18:15:32# 130. lþ. 96.11 fundur 706. mál: #A endurgreiðsla námslána# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:15]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Gott er að fá brýningu sem þessa til góðra verka, ekki dreg ég úr því. En menn verða að gæta sín, eins og ég sagði áðan, að í ákafa sínum við að koma fram góðum málum búi þeir ekki til fleiri vandamál en þeir eru að leysa.

Það er svo með Noreg að það land er pínulítið öðruvísi í laginu en Ísland. Það er ekkert vandamál að afmarka svæði eins og þar er gert sem miðast við nyrstu fylkin í landinu, Finnmörku og Troms eða Norður-Troms. Það er svolítið annað en að ákveða hvort veita eigi t.d. slíka styrki á Akureyrarsvæðinu eða tiltekinn kílómetrafjölda í austur og vestur frá Akureyri þar sem er háskóli. Eða á bara að miða það við Vestfirði eða Austfirði? Hvernig á að afmarka þetta mál, hvernig á að afmarka það landfræðilega? Hvað er landsbyggðin í þessu tilliti? (Gripið fram í: Ég býð fram aðstoð.) Já, gott að vita að hv. þm. er reiðubúinn til aðstoðar sem ævinlega. En ég er bara að benda á að þetta mál er kannski ekki eins einfalt og látið er í veðri vaka.

Hitt er annað mál að allar góðar hugmyndir til að glíma við byggðavandann sem við erum sammála um að er raunverulegt vandamál ekki bara fyrir byggðirnar úti á landi heldur fyrir þjóðfélagið, allar góðar hugmyndir í því efni eru að sjálfsögðu vel þegnar. Við í fjmrn. erum ábyrg fyrir þessari tilteknu hugmynd og verið er að athuga hana áfram eins og ég gat um.