Afsláttur af þungaskatti

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:18:10 (6309)

2004-04-14 18:18:10# 130. lþ. 96.12 fundur 762. mál: #A afsláttur af þungaskatti# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:18]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég lagði fram þá fyrirspurn sem ég fylgi hér úr hlaði er kort Vegagerðarinnar sem prentað er út 8. mars sl. þar sem á þeim hluta landsins sem prentaðist út af svo stóru korti er þéttriðið net, ef svo má að orði komast, þungatakmarkanaskilta á flestum vegum landsins, tíu tonn eins og þarna voru, sem væntanlega munu, ef veðurspár ganga eftir og gott veður verður áfram, taka gildi á næstu dögum aftur. Fyrirspurn mín er í framhaldi af því og er svohljóðandi:

Kemur til álita að veita flutningafyrirtækjum afslátt af þungaskatti meðan á þungatakmörkunum stendur á þjóðvegum landsins?

Eins og ég sagði er ástæðan sú mynd sem þarna birtist og það að þegar þungatakmarkanir eru settar á þjóðvegi landsins eykst flutningskostnaður svo og annar kostnaður flutningsaðila vegna þess að skipta verður vörum niður á annaðhvort tvo bíla í stað eins eða með aukatengivagni sem verður að greiða þungaskatt af. Við þetta eykst allur kostnaður til mikilla muna, eins og tekið er dæmi um á eftir.

Ég tek dæmi af akstri flutningabíls austur á land eða u.þ.b. 1.500 km fram og til baka. Í öðru dæminu þar sem farminum yrði skipt niður á tvo bíla ykist þungaskattsgreiðsla viðkomandi fyrirtækis um 40 þús. kr. sem fyrirtækið greiðir ríkissjóði í þungaskatt. Heildarkostnaður flutningsaðila á hvern ekinn kílómetra er hins vegar áætlaður 160 kr. á hvern kílómetra, sem er þungaskattur, olíugjald, laun og launatengd gjöld og hvað það allt heitir. Það gerir það að verkum að miðað við þær tölur sem flutningsaðilar nota eykst kostnaður þeirra um 240 þús. kr. við þetta.

Í öðru dæmi sem mig langar að taka er vörunum skipt, sem hefðu í öllum tilfellum komist í einn bíl, annars vegar á bíl og þar að auki verður að setja í tengivagn vegna þess að í staðinn fyrir t.d. 13 tonna flutning sem hægt væri að flytja á einum flutningabíl má ekki setja nema 8,5 tonn í bílinn og restina verður að setja í tengivagn. Greiðsla þungaskatts af flutningabíl þessa leið er um 40 þús. kr. eins og í fyrra dæminu, en greiðsla þungaskatts af tengivagninum er tæpar 28 þús. kr., þ.e. aukakostnaður sem hlýst af því og tekjuauki ríkissjóðs verður sem því nemur.

Þetta er geysilega mikil skattheimta, virðulegi forseti, og hæstv. fjmrh., fjárhaldsmaður ríkissjóðs, fær þarna auknar tekjur, verulega miklar tekjur, vegna þess að þungatakmarkanir eru í gangi. En það leiðir auðvitað til þess að kostnaður flutningsaðila eykst og hann er auðvitað kominn inn í verðlag flutningafyrirtækja og þar á meðal inn í flutningsgjaldskrá. Það er ástæðan fyrir þeirri spurningu sem ég bar fram í upphafi máls míns, virðulegi forseti, og langar að heyra svar hæstv. fjmrh. við henni.