Afsláttur af þungaskatti

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:31:21 (6315)

2004-04-14 18:31:21# 130. lþ. 96.12 fundur 762. mál: #A afsláttur af þungaskatti# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:31]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. þm. Jóns Bjarnasonar vil ég bara segja að nefndin sem hann gerir hér að umtalsefni starfar ekki á mínum vegum og mér er ekki kunnugt um hvernig starfi hennar miðar áfram. Því er rétt að hann beini þeirri spurningu til viðkomandi ráðherra sem er með þetta mál. (JBjarn: Þetta er ríkisstjórnarmál.)

Ég held hins vegar að það sé í ljós leitt hér við þessa umræðu, svo stutt sem hún nú er, að það er hyggilegt að hætta að karpa um þungaskattskerfið sem er í raun liðin tíð vegna þess að ef við breytum ekki yfir í olíugjald, sem ég leyfi mér að vona að verði gert um næstu áramót, þá þarf að lappa mjög mikið upp á núverandi þungaskattskerfi. Á því eru ótal gallar. Ég býð ekki í það sem út úr slíkri endurskoðun kæmi þegar búið verður að setja gjaldmæla í alla dísilbíla stóra og smáa, fastagjaldið afnumið og teknir upp fleiri og fleiri flokkar í gjaldi í stað þess kerfis sem nú er í dag. En það verður að gera ef okkur auðnast ekki að fara út í þessa kerfisbreytingu.

Að öðru leyti tel ég að fyrirspurninni sé svarað og málið upplýst af minni hendi.