Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:36:13 (6317)

2004-04-14 18:36:13# 130. lþ. 96.13 fundur 810. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er þannig í dag að fjmrn. gerir tæplega 80 kjarasamninga --- ég hygg að þeir séu 77 --- við 136 stéttarfélög um launa- og kjaramál og allir eru þeir vegna starfsmanna sem vinna hjá ríkinu. Nú nýverið er lokið samningsgerð vegna félaga innan Starfsgreinasambandsins sem voru með lausa samninga og með vorinu losna samningar félaga innan Farmanna- og fiskimannasambandsins auk annarra ASÍ-félaga. Einnig er verið að reyna að ná í fyrsta sinn kjarasamningi við Félag lyfjafræðinga.

Hvað varðar samninga þeirra stéttarfélaga starfsmanna ríkisins sem falla undir lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem hv. þm. vék að þá eru þeir flestir lausir um mánaðamótin nóvember/desember næstkomandi. Samkvæmt lögum eiga viðræður að hefjast tíu vikum fyrr eða um miðjan september. Hins vegar hafa viðræður staðið yfir við Kennarasamband Íslands til undirbúnings þeim samningum, en kennarar falla í þennan flokk starfsmanna ríkisins.

Fjmrn. á einnig í viðræðum um fyrirkomulag endurmenntunar við félög innan BSRB og BHM til undirbúnings næstu kjarasamningum. Einnig er unnið að ýmiss konar gagnaöflun og samanburði hvað snertir tölulegar upplýsingar varðandi laun á almennum markaði og hinum opinbera markaði. Almennt held ég að megi segja að viðræður milli þessara aðila séu í ágætum farvegi eins og þær eru alla jafna enda er brýnt að samstarf sé gott, ekki bara þegar verið er að semja heldur líka á milli samningalota.

Hvað varðar síðari spurningu hv. þm. um launakerfi og lagaumhverfi opinberra starfsmanna þá eru ekki nein sérstök áform hvað varðar fyrra atriðið um breytingar á launakerfi á döfinni. Hins vegar er of snemmt að fullyrða um það vegna þess að það verður, ef til þess kemur, hluti af kjarasamningaferlinu sjálfu. Hitt er annað mál að það launakerfi sem um var samið hér 1997 og aftur 2000--2001 er núna hluti af kjarasamningum og því verður ekki breytt einhliða af öðrum samningsaðilanum.

Hvað varðar breytingar á lagaumhverfinu þá er það rétt sem fram kom hjá hv. þm. að ég skipaði á sínum tíma starfshóp sem hefur það verkefni að skoða lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá 1986. Í þeim hópi eiga sæti fulltrúar bandalaga opinberra starfsmanna ásamt fulltrúum sveitarfélaga auk minna fulltrúa. Þessum hópi er ætlað að meta reynsluna af lögunum og gera samanburð á lagareglum okkar og lagareglum nágrannaþjóða okkar. Hann hefur m.a. farið utan til að kynna sér þá hluti í öðrum löndum. En þessi hópur hefur ekki enn skilað niðurstöðum.