Virðisaukaskattur af áskrift að netmiðlum

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:50:33 (6323)

2004-04-14 18:50:33# 130. lþ. 96.14 fundur 861. mál: #A virðisaukaskattur af áskrift að netmiðlum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki á því af hverju hv. þm. Hjálmar Árnason kemur með þessa fyrirspurn til hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. hefur nákvæmlega ekkert með þetta mál að gera. 14. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er alveg kýrskýr og þar er hvergi kveðið á um að lækka megi virðisaukaskatt af netmiðlum.

Hins vegar er þetta mjög sanngjörn og eðlileg krafa. Til að fá þessu breytt þá hvet ég hv. þm. Hjálmar Árnason til að leggja fram frv. um breytingar á viðkomandi lögum. Ég lagði fram frv. fyrir jól sjálfur og mælti fyrir slíkri lagabreytingu. Meðflutningsmaður minn var hv. þm. Helgi Hjörvar. Þar var um að ræða lækkun á virðisaukaskatti af hljóðbókum sem var ekki heldur í 14. gr. laganna. Þetta flaug í gegnum efh.- og viðskn. þingsins og var samþykkt rétt fyrir jól. Þannig lækkaði virðisaukaskattsprósenta af hljóðbókum úr 24,5% í 14%. Það er eðlilegt og sanngjarnt að gera hið sama með netmiðla.