Virðisaukaskattur af áskrift að netmiðlum

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:51:43 (6324)

2004-04-14 18:51:43# 130. lþ. 96.14 fundur 861. mál: #A virðisaukaskattur af áskrift að netmiðlum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:51]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Virðulegur forseti. Ég skildi ekki alveg efni síðustu ræðu. Auðvitað kemur hæstvirtum fjmrh. þetta mál mikið við. Hann er yfirmaður innheimtu af virðisaukaskatti og í slíku er mjög eðlilegt að hafa samstarf og gott samráð við hæstv. fjmrh. eða aðra ráðherra þegar kemur að því að breyta lögum. Þannig virkar samstarf.

Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Eðlilega getur hæstv. fjmrh. ekki veitt undanþágur hvað varðar áskrift að netmiðlum þar sem lögin heimila það ekki, enda tók ég það fram í fyrirspurn minni. Fyrirspurnin laut að því hvort til stæði að gera slíka breytingu. Ég lít svo á að hæstv. fjmrh. muni skoða slíka breytingu við endurskoðun sem fram fer á virðisaukaskattskerfinu og lækkun á virðisaukaskatti, sem skýrt hefur verið frá í stjórnarsáttmálanum að standi fyrir dyrum. Lækkun virðisaukaskattsins felur í sér lagabreytingu og þar með væri eðlilegt að kippa inn leiðréttingu á borð við þá sem hér er spurt um.

Það er augljóst að lagaumhverfið hefur ekki fylgt þeirri þróun sem orðið hefur í kringum netið. Það má segja með fullgildum rökum að miðað við núverandi fyrirkomulag sé verið að mismuna hinum einstöku útgáfum, þ.e. borga einungis 14% virðisaukaskatt af bókum og áskriftum ýmiss konar, hvort heldur er að öldum ljósvakans eða prentmiðlum. En ef upplýsingaveitan er í gegnum netið þá ber hún 24,5% skatt. Það er mismunun sem stenst tæpast jafnréttislög, samkeppnislög og jafnræði. Ég hvet því hæstv. fjmrh. til að hafa þetta í huga þegar kemur að því að við lækkum virðisaukaskattinn og gæta jafnræðis.