Aldurstengd örorkuuppbót

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:01:27 (6331)

2004-04-14 19:01:27# 130. lþ. 96.17 fundur 837. mál: #A aldurstengd örorkuuppbót# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:01]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í samkomulagi því sem gert var við öryrkja rétt fyrir síðustu alþingiskosningar um aldurstengda örorku var gert ráð fyrir að þessi réttindi falli niður við 67 ára aldur. Um framkvæmd þessa samkomulags hafa staðið yfir deilur og Öryrkjabandalagið hefur haldið því fram að nokkuð vanti upp á að samkomulaginu hafi verið framfylgt og skilja að þar um 500 millj. til að samkomulagið sé að fullu uppfyllt að mati Öryrkjabandalagsins. Hér var vissulega um að ræða mikinn áfanga í réttindabaráttu öryrkja. Það var baráttumál Öryrkjabandalagsins til margra ára að hækka grunnlífeyri öryrkja og mest þeirra sem yngstir verða öryrkjar. Því miður tókst ekki að miða við 16 ára aldur öryrkja í stað 18 ára og einnig er sérstakt að þessi réttur fellur niður við 67 ára aldur því útgjöld sem fylgja örorkunni hætta ekki þó öryrkinn nái 67 ára aldri.

Það má t.d. nefna um þessi auknu útgjöld að heyrnarlausir þurfa að greiða fyrir þjónustu túlks ef viðkomandi fyrirtæki eða stofnanir gera það ekki. Flestir blindir eða mjög sjónskertir komast ekki ferða sinna án þess að taka leigubifreiðar. Það á reyndar við um hreyfihamlaða einnig. Hreyfihamlaðir og fleiri öryrkjar reyndar þurfa líka á margvíslegum hjálpartækjum að halda og eru sum þeirra ekki greidd eða niðurgreidd af Tryggingastofnun ríkisins. Heyrnarskertir þurfa t.d. að greiða um 70 þús. kr. fyrir heyrnartæki hér á landi og er það ofviða mörgum sem einungis hafa lífeyrisgreiðslur almannatrygginga.

Öryrkjabandalagið hefur gert athugasemd við skert réttindi aldraðra öryrkja sem birtast í því að réttindin sem um var samið við öryrkjana á sl. ári falla niður þegar öryrkinn verður 67 ára þó að viðbótarkostnaður og útgjöld vegna örorkunnar séu að sjálfsögðu viðvarandi áfram.

Með bréfi 16. febrúar sl. vakti Öryrkjabandalagið athygli hæstv. heilbrrh. á þessu sem þeir kalla meinbug á lögunum. Þeir segja m.a. í því bréfi, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 12. og 29. gr. áðurgreindra laga greiðist örorkulífeyrir einstaklinga á aldrinum 16--67 ára. Því er augljóst að þeir sem hafa fengið aldurstengda örorkuuppbót missa hana þegar 67 ára aldri er náð. Þegar hafa nokkrir haft samband við Öryrkjabandalag Íslands vegna þessa. Ástæða er til að vekja athygli á þessum meinbug laganna. Nauðsynlegt er að setja ákvæði inn í lögin þess efnis að þeir sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt lögum þessum haldi réttindum sínum eftir að 67 ára aldri er náð.``

Ég hef því lagt fyrir hæstv. heilbrrh. fyrirspurn um hver rökin fyrir því að hætta að greiða aldurstengda örorkuuppbót við 67 ára aldur séu, hve mikil útgjöld fylgi því að greiða hann eftir 67 ára aldurinn, hve margir fái nú aldurstengda örorkuuppbót, hver útgjöldin hafi verið vegna þessa og loks hvort ráðherra sé tilbúinn að beita sér fyrir því að öryrkjar haldi örorkutengdum réttindum eftir að 67 ára aldri er náð.