Aldurstengd örorkuuppbót

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:04:45 (6332)

2004-04-14 19:04:45# 130. lþ. 96.17 fundur 837. mál: #A aldurstengd örorkuuppbót# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:04]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Aldurstengdri örorkuuppbót var komið á samkvæmt samkomulagi sem gert var við Öryrkjabandalag Íslands síðastliðið vor. Samkomulagið var lögfest á haustþingi og tók gildi í upphafi þessa árs. Samkvæmt samkomulaginu er stigið fyrsta skrefið til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Þeir sem yngstir verða öryrkjar til lífstíðar fengu þannig hækkun á grunnlífeyri frá almannatryggingum sem nemur allt að tvöföldun grunnlífeyrisins. Þeir sem verða öryrkjar síðar á lífsleiðinni fá hins vegar hækkun á núverandi grunnlífeyri með hliðsjón af aldri þannig að þeir sem verða öryrkjar 67 ára fá grunnlífeyri sem nemur sömu upphæð og ellilífeyrir er frá almannatryggingum.

Í þessu samkomulagi er ekki gert ráð fyrir að aldurstengd örorkuuppbót hafi lengri lífdaga en örorkulífeyririnn sjálfur. Hann leggst af við 67 ára aldur og tekur þá ellilífeyrir við þar sem sama upphæð er greidd til allra landsmanna 67 ára og eldri burt séð frá tekjutengingum þar sem sömu skilyrði gilda fyrir alla.

Í samkomulaginu er rætt um aldurstengda örorkuuppbót sem hækkun grunnlífeyris öryrkja. Það er ekki fyrr en í útfærslu undirbúningsnefndar vegna samkomulagsins þar sem ákveðið var að hækkunin yrði sérstakur bótaflokkur tengdur grunnlífeyri öryrkja en nefndin hafði ekki heimild til að láta þennan sérstaka bótaflokk hafa lengri gildistíma en grunnlífeyririnn sjálfur hefur þar sem það hefði gengið út fyrir ramma samkomulagsins. Þetta eru hinar sögulegu skýringar á því hvers vegna aldurstengd örorkuuppbót er ekki greidd lengur en til 67 ára aldurs, a.m.k.á þessu fyrsta ári hennar.

Gera má ráð fyrir því gróft reiknað að kostnaður við að halda áfram greiðslu aldurstengdar örorkuuppbótar umfram 67 ára aldur og jafnframt að taka upp þessa greiðslu fyrir öryrkja sem þegar eru komnir á ellilaun verði um það bil 80 millj. kr. Síðan mætti gera ráð fyrir að þessar greiðslur hækkuðu um 10--13 millj. á hverju ári næstu árin. Þegar ég segi gróft reiknað, og ég vil gera fyrirvara um þessar tölur, þá er það vegna þess að inn í þessa útreikninga vantar enn ýmsar forsendur eins og t.d. nákvæmari og betri athugun á fyrsta örorkumatsaldri núverandi ellilífeyrisþega og svo gæti ýmislegt fleira haft áhrif á niðurstöðu útreikninganna.

Rúmlega 12.200 öryrkjar fá nú um þessar mundir aldurstengda örorkuuppbót. Útgjöld vegna þessa bótaflokks hafa numið rúmum 380 millj. kr. þessa fyrstu fjóra mánuði ársins þannig að gera má ráð fyrir því að heildarútgjöld ársins muni nema tæplega 1.200 millj. kr. Taka verður tillit til þess að fjölgun öryrkja, einum þeirra yngri, er töluverð. Þannig má segja frá því að fjölgun bótaþega öryrkja frá því í nóvember á fyrra ári til febrúar þessa árs var um það bil 3%. Þessi fjölgun hefur að sjálfsögðu töluverð áhrif á heildarútgjöld ársins.

Fulltrúar Öryrkjabandalagsins hafa komið á framfæri þeirri ósk sinni að öryrkjar haldi aldurstengdu örorkuuppbótinni eftir 67 ára aldur. Á þessu stigi er hins vegar ótímabært að gefa nokkrar yfirlýsingar um framhald málsins þar sem, eins og fram kemur í greinargerð frv. sem samþykkt var á haustþingi, gert er ráð fyrir að á miðju ári verði lagt mat á það hvernig til hafi tekist til að koma sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni og verður þá málið skoðað í heild sinni.