Hjúkrunarrými í Suðvesturkjördæmi

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:21:00 (6338)

2004-04-14 19:21:00# 130. lþ. 96.16 fundur 800. mál: #A hjúkrunarrými í Suðvesturkjördæmi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:21]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. fannst svörin rýr í roðinu og kann að vera að þau hafi verið það. Ég hefði gjarnan viljað vera kominn lengra áleiðis með áætlanir næstu ára en eins og ég sagði höfum við verið að vinna að endurbótum á þeirri löggjöf sem liggur til grundvallar byggingunum og einnig höfum við verið að ræða hugmyndir m.a. um samstarf Seltjarnarness og Reykjavíkur um byggingu hjúkrunarheimila þannig að það er mikið að gerast á þessum vettvangi.

Varðandi það að löggjöfin gefi möguleika á einkaframkvæmd tel ég að rétt sé að opna þann möguleika. Það gæti fjölgað þeim leiðum sem menn geta byggt eftir en aðalatriðið er að fá fjárveitingu til þess að reka þau viðbótarrými sem koma. Það er ekki nóg að byggja og mikill áhugi er á að byggja hjá fjölmörgum aðilum. En það sem stoppar okkur af er rekstrarfjármagnið og kannski þess vegna sem svör mín eru ekki bitastæðari á þessu stigi. En myndin mun skýrast á næstu mánuðum.

Ég vil geta þess eins og ég sagði í upphafi að á höfuðborgarsvæðinu er blandað í þessu efni og menn liggja aldraðir á hjúkrunarheimilum í öðrum sveitarfélögum en þeir eiga lögheimili í.