Tvöföldun Vesturlandsvegar

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:23:38 (6339)

2004-04-14 19:23:38# 130. lþ. 96.18 fundur 741. mál: #A tvöföldun Vesturlandsvegar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi VF
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:23]

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson):

Virðulegi forseti. Um Vesturlandsveg á kaflanum milli Víkurvegar í Reykjavík og Skarhólabrautar í Mosfellsbæ fara um 17 þúsund bílar á dag. Þessi mikla umferð og sú aukning sem vænta má á næstu árum kallar á tvöföldun Vesturlandsvegar á þessum kafla. Ríkisstjórnin fyrirhugar að ráðast í tvöföldun á næstunni. Það er jákvætt bæði fyrir okkur Mosfellinga og alla aðra er fara þarna um. Þessi vegarkafli tilheyrir samkvæmt flokkun Vegagerðarinnar flokki A1. Samkvæmt honum skal hafa mislæg gatnamót yfir allar þveræðar.

Þrátt fyrir það er áætlað að setja upp tvö hringtorg á þessum vegarkafla. Hringtorgin kosta í kringum 100 millj. kr. og samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið eru þau einungis til bráðabirgða þar til mislæg gatnamót verða reist sem samkvæmt samgönguáætlun gæti jafnvel orðið strax 2007, alla vega annað þeirra. Væri ekki nær að fara strax í gerð mislægra gatnamóta í stað þess að henda þarna um 100 millj. kr.

Ég spyr því hæstv. samgrh.: Hvenær hefjast framkvæmdir við tvöföldun Vesturlandsvegar frá Víkurbraut í Reykjavík til Skarhólabrautar í Mosfellsbæ og hvenær er áætlað að þeim ljúki?