Sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:46:56 (6349)

2004-04-14 19:46:56# 130. lþ. 96.20 fundur 834. mál: #A sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:46]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna svörum hæstv. landbrh. við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar, um að hann sé tilbúinn til að skoða hugsanlegan samruna á stofnunum í stoðkerfi landbúnaðarins.

Það kom mér svolítið á óvart að hlusta á hæstv. ráðherra, kannski vegna þess að ég hélt að hann væri fastari í fjötrum fortíðar en fram kom í máli hans. Sá sem þar talaði sýndi að hann er tilbúinn til að taka mál til skoðunar og endurskoðunar ef á þarf að halda og ég fagna því.

Rannsókna- og þjónustustofnanir landbúnaðarins hljóta að verða sterkari ef hægt er að gera þær að stærri einingum en nú er. Það er alltaf svo með þessar stofnanir okkar að þar sem okkur tekst að safna saman þekkingu og reynslu verður sterkari stofnun eftir en áður.