Vatnasvæði Ölfusár og Hvítár

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 20:01:11 (6354)

2004-04-14 20:01:11# 130. lþ. 96.21 fundur 901. mál: #A vatnasvæði Ölfusár og Hvítár# fsp. (til munnl.) frá landbrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[20:01]

Björgvin G. Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að þakka hv. fyrirspyrjanda, Magnúsi Þór Hafsteinssyni, fyrir að vekja máls á þessu merkilega og ágæta máli. Eins og fram kom í máli hans hefur hrun átt sér stað í laxveiði á svæðinu og varla hægt að orða þetta öðruvísi þegar við erum að tala um breytingu úr 14 þúsund fiskum í 3--5 þúsund og ástæða til að nota það tækifæri sem þessi umræða á hinu háa Alþingi gefur okkur til að skora á hlutaðeigendur, þá sem hafa með veiðinýtingu á þessu svæði að gera, Veiðifélag Árnesinga, til að beita sér fyrir verulegri takmörkun á netveiðum á svæðinu. Stangveiðin býður upp á mikinn samfélagslegan hagnað og með því að efla stangveiðina og byggja upp stofninn þannig að það megi veiða fleiri fiska á stöng, má færa rök fyrir því að svæðið allt muni hagnast verulega á því og er ástæða til að taka undir með þeim sem hafa áhyggjur af hruninu í laxveiðum og vilja efla stangveiðina til muna.