Vatnasvæði Ölfusár og Hvítár

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 20:05:45 (6358)

2004-04-14 20:05:45# 130. lþ. 96.21 fundur 901. mál: #A vatnasvæði Ölfusár og Hvítár# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi MÞH
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[20:05]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. Ég get tekið undir að viðkomandi veiðifélag ræður að sjálfsögðu hvernig það vill nýta auðlind sína. Veiðifélagið í Árnesþingi á náttúrlega að fá að ákveða það sjálft en hins vegar verður ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að hæstv. landbrh. er yfirmaður veiðimála í ferskvatni á Íslandi og mér finnst einfaldlega rökin sem mæla með því að netaveiðum verði hætt eða dregið úr þeim það veigamikil að hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á þessum málum reyni að beina áhrifum sínum í þá átt að málið fari í þann farveg.

Ég held að til lengri tíma litið verði hagsmunirnir mun meiri fyrir náttúruna og líka fyrir þá sem búa á þessu svæði ef auðlindin yrði nýtt með stangveiðum en ekki að hluta til nýtt í net eins og nú er.

Hv. þm. Gunnar Birgisson talaði um Hvítá í Borgarfirði. Í ágætri skýrslu frá Veiðimálastofnun stendur, með leyfi forseta: ,,Í Hvítá í Borgarfirði voru net tekin upp og skilaði það 28--35% veiðiaukningu í þverám hennar. Þetta þýðir að 39--52% af þeim fiski sem veiddist áður í netin veiðist nú á stöng.``

Þetta ku vera vísindalega sannað. Ég fagna því að tekjustofnar Fiskræktarsjóðs muni aukast. Það mun vonandi leiða til þess að rannsóknir á þessu merka svæði verði auknar. Hvað varðar mengunarhlutann var ég fyrst og fremst að velta fyrir mér hlutum eins og vöktun á svæðinu --- ég er að tala um allt vatnasvæðið, ekki bara Hvítá og Ölfusá, ég er líka að tala um vötnin, þar á meðal Þingvallavatn --- vöktun á umhverfisþáttum, ekki bara á lífrænni mengun sem þarf ekki endilega að vera skaðleg, heldur líka á hlutum eins og þungmálmum. Ég mun reyna að kalla enn frekar eftir því hvort sú vöktun eigi sér stað enn þann dag í dag.

Heilt á litið vil ég enn og aftur þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans.