Vatnasvæði Ölfusár og Hvítár

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 20:07:57 (6359)

2004-04-14 20:07:57# 130. lþ. 96.21 fundur 901. mál: #A vatnasvæði Ölfusár og Hvítár# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[20:07]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil segja um þá minnkun sem hefur orðið á veiði á vatnasvæðinu að það er erfitt að skýra hana en kannski var hún gríðarlega mikil fyrir 1980. Enginn má gleyma því mikla áfalli þegar Hagavatn hljóp fram og áin varð kolmórauð heilt sumar og allir steinar fullir af leir og drullu. Þá breyttist mjög vatnasvæðið og veiði hefur aldrei risið í sömu hæðir síðan. Það er ein stærsta ástæðan og svo kom aftur hlaup síðar sem hefur haft mikil áhrif á vatnasvæðið.

Hvað netin varðar er það, eins og hér kom fram, hugarfar, lífstíll og eigi að síður að margar mjög sterkar laxveiðijarðir hafa enn þá af þeim miklar tekjur. Þetta er einkaréttur þeirra manna sem jarðirnar eiga og þeir nýta hann enn. Það þarf heilmikla peninga og félagslega samvinnu til þess að ná saman um málið. Þetta eru mennirnir að skoða núna. Við eigum margar víðfrægar veiðijarðir á svæðinu upp um Ölfusá og Hvítá sem hafa þetta. Ég minni á að allt vatnasvæðið er að hluta til mjög gott stangveiðisvæði líka. Í Ölfusá og Hvítá eru alveg eins falleg svæði og í Langholti og Hallandi þar sem eru glæsilegir fossar og ker. Þar var einu sinni mikil stangveiði en hefur dregið úr. Vísindamennirnir hafa heldur ekki getað skýrt þá miklu breytingu. Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Birgissyni að við höfum séð þá þróun að þó netin fari upp hefur jafnvel veiðin hrunið. Sumir vísindamenn sem ég hef hitt telja að það þurfi að veiða í net. Ég er ekki þeirrar skoðunar.

Ég þakka umræðuna og tel mikilvægt að menn á heimasvæði nái saman um þessi mál og hafi hagsmuni heildarinnar í huga. Veiði á Íslandi gefur mikla möguleika, miklar tekjur og skapar ferðamannastraum um landsbyggðina.