Viðræður um fyrirhugaða fækkun í varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 10:38:43 (6364)

2004-04-15 10:38:43# 130. lþ. 97.91 fundur 467#B viðræður um fyrirhugaða fækkun í varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[10:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég var ekki að spyrja um hvort fyrirhugaðar væru formlegar viðræður. Ég spurði eftir því hvort hæstv. forsrh. Davíð Oddsson mundi leita eftir því að hafa viðræður við háttsetta yfirmenn og hvort hann mundi freista þess að ná fundi Bush forseta vegna þessa máls.

Mér er mætavel kunnugt um það sem kom fram í máli hæstv. utanrrh. á fundi utanrmn. Ég get ekki gert grein fyrir því sem þar fór fram vegna þess að það var trúnaðarmál. En hæstv. utanrrh. man vel að ég spurði hann þar sérstaklega út í þá yfirlýsingu Davíðs Oddssonar um að í apríl yrðu mikilvægar viðræður. Hæstv. utanrrh. getur svo gert það upp við sig hvort hann vill greina þinginu frá því sem hann svaraði mér þá.

Staðan er sú að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að í apríl verði mikilvægar viðræður. Hæstv. forsrh. er nú í Bandaríkjunum. Vel kann að vera að ástæða þess sé að opna listsýningar. En það er nú oft þannig að þegar ráðamenn fara til annarra ríkja þá nota þeir tækifærið til þess að reyna að ná samböndum til að leysa mál. Ég verð að lýsa því yfir að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með það hvernig íslensk stjórnvöld hafa haldið á þessu máli.

Hér er um að ræða hornsteininn í utanríkismálum Íslendinga og ég fæ ekki betur séð en að ekkert sé að gerast í málinu. Það er alveg sama við hvaða sendimann Bandaríkjanna maður talar að það er alveg ljóst að ekkert er handfast í þessum málum. Ég verð að segja að það er með ólíkindum ef forsrh. landsins fer til Bandaríkjanna án þess að reyna að nota þá för til þess að leysa þetta mál. Hann hefur þegar tekið það úr höndum hæstv. utanrrh. og þá er það skylda forsrh. að gera allt það sem hann getur til þess að leysa þetta. Eða á þetta mál að damla svona fram eftir vori og fram eftir hausti?