Viðræður um fyrirhugaða fækkun í varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 10:40:47 (6365)

2004-04-15 10:40:47# 130. lþ. 97.91 fundur 467#B viðræður um fyrirhugaða fækkun í varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[10:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. sé það alveg ljóst að ef fyrirhugaður hefði verið fundur milli forsrh. Íslands og Bush Bandaríkjaforseta hefði það að sjálfsögðu verið tilkynnt fyrir fram. Ég veit ekki hvernig hv. þm. dettur það í hug að forsrh. fari til New York og reyni þá svona í leiðinni að ná fundi með Bush Bandaríkjaforseta. Að sjálfsögðu eru slíkir fundir skipulagðir með löngum fyrirvara og það veit hv. þm.

Þetta mál er á borði Bandaríkjaforseta. Það er búið að liggja lengi fyrir og það komst inn á hans borð fljótlega eftir kosningar m.a. vegna þess hvernig íslensk stjórnvöld hafa haldið á þessu máli. Ég tel að við höfum haldið á málinu fullkomlega eðlilega. Menn verða að hafa þolinmæði til þess að sjá fyrir endann á því. Það mun taka nokkurn tíma. En ég tel að það sé í þeim farvegi sem ætti að geta leitt til góðrar niðurstöðu. Mér finnst því fullkomlega ástæðulaust af hv. þm. að nota þetta tækifæri hér til að gera því skóna að hæstv. forsrh. hitti Bandaríkjaforseta í þessari för. Það hefði þá að sjálfsögðu legið fyrir fram fyrir.