Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 12:09:10 (6378)

2004-04-15 12:09:10# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[12:09]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir góða ræðu og það sem hann vakti athygli á, að Sjómannaskólinn hefði kannski dafnað betur sem atvinnuvegaskóli. (Gripið fram í: Ekki nokkur vafi.) Það er einmitt það sem verið er að tryggja með þessari breytingu að Landbúnaðarháskólinn og skólar landbúnaðarins verði atvinnuvegatengdir skólar og því kemur nú sú breyting sem hv. þm. minntist á að nemendur og kennarar sitja ekki í háskólaráðinu.

Hv. þm. spyr um verkaskiptingu á milli skólanna. Hún er nokkuð skýr og var mörkuð fyrir mörgum árum. Ekkert er verið að raska þeirri verkaskiptingu. Það er alveg skýrt að Hólar fara með hestamennskuna, ferðaþjónustuna og fiskeldið og hafa staðið sig vel þar. Reykir fara með garðyrkjuna, blómaskreytingarnar og garðarkitektúrinn og allt sem snýr að þeirri fegurð. Verkaskiptingin er því skýr. Ég tek undir það að samvinna á milli skólanna þarf að vera mikil. Hér er ekki verið að leggja til að Landbúnaðarháskólinn hafi neitt yfirvald en geti þó sem Landbúnaðarháskóli Íslands tekið þátt í samstarfi við þessa skóla og komið inn í rannsóknir að fullu með þeim, en rannsóknarsviðin á milli skólanna eru einnig skýr. Hér er því ekki á neinn hátt hallað á Hóla eða Reyki. Staða þeirra verður sterk áfram og vonandi sterkari í gegnum þá samvinnu sem þróast hefur og þarf að verða enn þá ríkulegri í framtíðinni.