Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 12:14:55 (6381)

2004-04-15 12:14:55# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[12:14]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að ég er ekki alveg sáttur við að ráðherrann geti haft þetta vald án þess að það sé með neinu móti takmarkað. Eðlilega er það svo þegar taka á fyrir að ráðstafa miklum fjármunum að þá þurfi að vera fyrir því fjárheimildir og annað slíkt. Ég geri ekki ráð fyrir að fjárheimildir hins nýstofnaða háskóla, Landbúnaðarháskóla Íslands, verði það rúmar að háskólaráðið geti bara ákveðið að taka út hundruð milljóna kr. til að setja í eitthvert fyrirtæki. Ég á ekki von á því. Ég tel því eðlilegt, eins og ráðherrann svaraði þessu áðan, að ef fara ætti í miklar fjárskuldbindingar þá hlytu þær, þrátt fyrir áhuga varðandi þátttöku í verkefninu, að koma til kasta afgreiðslu fjárlaga o.s.frv. og þurfa að marka þeim fjárheimildir. Þar kemur auðvitað fram vilji ríkisvaldsins hvort það vill stuðla að því með því að samþykkja það sem lagt hefur verið til með öflun fjár.

En ég endurtek það að ég er á þeirri skoðun að það geti ekki verið algjört einræðisvald ráðherrans og þurfi að skoða með hvaða hætti það er ef ráðherrann hefur það vald að geta í raun og veru stöðvað aðild að verkefnum sem ekki fela í sér verulega fjármuni, kannski væri um að ræða nokkrar milljónir sem menn vildu leggja í ákveðið verkefni sem þeir teldu til mikilla framfara horfa og þá gæti ráðherrann stöðvað það. Mér finnst þurfa að setja því skýrari línur en frv. gerir ráð fyrir.