Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 12:16:59 (6382)

2004-04-15 12:16:59# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[12:16]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg við 1. umr. um þau frumvörp er hæstv. landbrh. hefur lagt fram.

Það eru nokkur atriði sem þarf sérstaklega að huga að. Fyrir það fyrsta, eins og fram hefur komið m.a. í máli hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur, er með öllu óskiljanlegt hvers vegna mál af þessari stærðargráðu líkt og reyndar önnur mál sem eru til umfjöllunar í hv. landbn. eru lögð fram með eins lítinn tíma til umráða af þinghaldinu og raun ber vitni. Eins og þingheimur veit kallar þetta ekki á vönduð, fagleg og ítarleg vinnubrögð. Yfir það hefur verið farið hér og í sjálfu sér engin ástæða til að ræða það meira að sinni, en svo virðist vera sem hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Íslands vilji að frv. þeirra séu meðhöndluð með þessum hætti. Að minnsta kosti er ekki hægt að skilja framlagningu frumvarpa og þingmála ríkisstjórnarinnar öðruvísi á hinu háa Alþingi.

Hvað efni frumvarpanna varðar, að setja RALA inn í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og kalla hann Landbúnaðarháskóla Íslands, má fyrst segja að í frumvarpstextanum og greinargerðum finnst mér algjörlega vanta markmiðin með aðgerðinni. Rökstuðningurinn er rýr nema sá að efla og sameina. Það segir sig sjálft að sameiningin hlýtur að vera til þess að efla og sameina. Eins og hv. þm. Jón Bjarnason benti á í ræðu sinni áðan vantar í raun inntakið í þessa fyrirhuguðu aðgerð. Hvaða tilgangi á hún nákvæmlega að þjóna og hvernig mun það koma til góða fyrir háskólanám í landbúnaði á Íslandi? Hvernig mun það bæta háskólanám á Hvanneyri og vonandi víðar og hverju mun það breyta, bæði fyrir nemendur í þessum háskólum og þá sem þar starfa, kennara og aðra? Í þessu ljósi verður færslan á RALA, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, undir Landbúnaðarháskóla Íslands eins og hér er lagt til að skoðast. Í sjálfu sér virðist það vera sanngjarn gjörningur, en samt er hann rökstuddur með næstum engu. Hvernig mun rannsóknum í landbúnaði verða háttað? Munu þær ná til allra efnissviða, ef svo má að orði komast, eins og hv. þm. Kjartan Ólafsson benti á? Er verið að færa RALA undir Landbúnaðarháskóla Íslands til að búa til rannsóknafé með tilfærslu? Er það tilgangurinn? Er verið að beintengja svo við atvinnuvegina að aðrar rannsóknir verði út undan, ýmiss konar grunnrannsóknir? Við þessu þarf að fá svör. Ég vænti þess í sjálfu sér ekki að hæstv. landbrh. svari þessu hér og nú, en ég vænti þess hins vegar að hv. landbn. fari mjög vandlega og ítarlega yfir málið og taki sér þann tíma sem til þarf til að leita álits og umsagna og komast til botns í því hvert inntakið með breytingunni er og hvert stefnir raunverulega.

Hér hefur einnig verið komið inn á að þróunin sé, og það er að sjálfsögðu hin rökrétta þróun, að menntastofnanir landsins heyri undir menntmrn. Á því eru undantekningar, samanber þær stofnanir sem heyra undir landbrn. en það hlýtur samt að þurfa að ræða það í samhengi hvort við séum á réttri leið í menntapólitíkinni almennt með því að styrkja þær stofnanir eða sameina með þeim hætti sem hér er lagt til.

Einnig hefur verið spurt um umráð yfir tilraunastöðvum eins og fram kemur í frv. til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, sem eru gömul lög frá 1965. Þýðir það að væntanlegur landbúnaðarháskóli hefur algjört úrskurðarvald um hvernig rannsóknir og tilraunir fari fram? Með hvaða hætti á að útfæra það? Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson var einnig að spyrja hæstv. ráðherra um neitunarvald sem ráðherrann hefur og verður að spyrja: Ætlar hæstv. landbrh., hver sem hann er, að hafa rekstur háskólanna ofan í skúffu í landbrn. og vera með puttana í öllu? Það kalla ég ekki góða menntapólitík og ekki góða háskólapólitík. Háskólar eiga að vera sjálfstæðir. Þeir eiga að vera eins sjálfstæðir frá ríkisvaldinu og unnt er. Vissulega fá þeir fjárveitingar sínar frá ríkisvaldinu en það á í raun að vera allt og sumt. Löggjafinn setur rammann og hér hefur komið fram að forsögn rammalaga um háskóla hér á landi er í raun að engu höfð við samningu frumvarpanna, ef ég hef skilið það rétt. Ég vil samt taka fram, hæstv. forseti, að ég þekki þá löggjöf ekki vel og tel einhlítt að það verði skoðað betur í landbn. hvers vegna þetta sé með þessum hætti.

Hvað varðar tiltekin efnisatriði frv. vil ég fyrst og fremst gera athugasemdir við það að ráðherra skipi rektor, að það sé ekki í höndum þess háskólasamfélags sem í hlut á, hvort heldur það er stjórn skólans, háskólaráð eða að rektor sé kosinn eins og t.d. er gert í Háskóla Íslands og alþekkt er. Það getur varla talist mjög faglegt að ráðherra skipi rektor í einum háskóla. Við vitum það af langri og biturri reynslu íslenskrar stjórnmálasögu að þegar kemur að því að skipa í svona stöður ræður því miður oft annað en faglegur metnaður og framtíðarsýn um háskólamál. Þess vegna vil ég gjalda varhuga við því að ráðherra sé fært það vald að skipa rektor með þessum hætti og tel að það geti varla verið að á hinu háa Alþingi árið 2004 séu þingmenn sammála því að ráðherrann hafi það vald yfir einum háskóla að geta skipað rektor á þennan hátt.

Hæstv. ráðherra minntist í framsögu sinni á samráð við forstöðumenn þeirra skóla sem í hlut eiga. Einnig talaði hann um að skoðanakönnun hefði verið gerð meðal starfsmanna stofnananna um fyrirhugaðar breytingar. Það hefði hins vegar verið gott að heyra hvað fólki finnst um breytingarnar. Það kom ekki fram. Bara að könnunin hefði verið gerð en ekki hverju hún skilaði. Voru starfsmenn almennt jákvæðir eða neikvæðir? Af hvaða atriðum þessa máls hafa þeir áhyggjur? Allt þetta þarf að koma í ljós og ég vænti þess að þær upplýsingar fáist inn á borð hv. landbn. Það skiptir mjög miklu máli ef af einhverjum svona breytingum verður, að það sé gert í samráði og með fullu samþykki starfsmanna. Við höfum reynslu af öðru þar sem einmitt hefur verið kastað til höndunum við slíka sameiningu eða tilfærslu stofnana, oft með mjög óheppilegum afleiðingum fyrir þær stofnanir, þannig að ég vænti þess að þær upplýsingar skili sér til hv. landbn.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson nefndi nokkur atriði sem ég vil taka undir með honum. Hann talaði um að gott væri að horfa í baksýnisspeglana við umræðuna. Ég vil taka undir það og ég vil líka hvetja til þess að í umræðunni fari málið til hv. landbn., umhvn. og menntmn. eins og hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir lagði til í ræðu sinni. Það er mjög mikilvægt að málið sé skoðað í samhengi við menntmn. og ekki síður við umhverfismálin og umhvrn.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson nefndi einnig þrjár skýrslur um framtíð skólanna sem hafa verið skrifaðar og liggja víst fyrir í landbrn. og hafa gert það um eins og hálfs árs skeið skilst mér. Spyrja má hvers vegna þær liggi ekki frammi með frumvarpinu eða séu á einhvern hátt grundvallargögn í málinu, því ég vænti þess að þær skýrslur hafi verið skrifaðar til annars en að láta þær bara liggja ofan í skúffu í ráðuneytinu og eigi ekki heima í umræðunni. Ég vona svo sannarlega að þær verði teknar til umfjöllunar og ræddar í hv. landbn.

Þó vissulega geti verið margt gott og margt sem rökstyður sameiningu af þessu tagi má almennt segja um frumvörpin sem hér liggja fyrir, hæstv. forseti, að rökstuðningurinn er rýr og það hefði verið betra að hafa í höndunum skýrari markmið og meiri umfjöllun um inntak breytinganna. Þetta er það efni sem hv. landbn. hefur í höndunum og að sjálfsögðu munu nefndarmenn fara mjög vandlega yfir málið og kalla til álitsgjafa, stofnanir og þá sem þetta mál varðar til þess að fá umsagnir um fyrirhugaðar breytingar.

Aðeins eitt atriði að lokum, hæstv. forseti, vegna þess að hér er lagt til að færa heila rannsóknastofnun undir Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri hefur líka önnur þróun verið í gangi, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum, um einmitt ráðstöfun rannsóknafjár. Sú þróun hefur verið í þá átt að ráðstöfun rannsóknafjár sé að stærri hluta en hingað til hefur verið úr samkeppnissjóðum þannig að bestu rannsóknirnar fái mest fé og skólar, fræðimenn og aðrir þurfa að sækja í samkeppnissjóði, en þeim er ekki afhent rannsóknafé á silfurfati eins og virðist vera gert hér. Mér finnst þetta ekki alveg ríma við þá þróun sem verið hefur. Vissulega þyrfti að ræða það betur og vonandi verður kafað ofan í það í nefndinni, en ég vildi hins vegar nefna það í lokin að þetta virðist vera úr takt við þá þróun sem almennt gerist í fjárveitingum til rannsókna, hvort sem það er á sviði landbúnaðar eða annarra sviða.